26. september 2011

Safninu gefinn 84 ára gamall bíll

Að þessu sinni segjum við frá viðburði með fréttatilkynningu frá Arion-banka:

 

"Stjórn Arion banka hélt nýverið stjórnarfund í Borgarnesi og færði um leið félögum og stofnunum á Vesturlandi styrki og gjafir fyrir hönd bankans.

 

Arion banki gaf Landbúnaðarsafninu á Hvanneyri glæsilegan Ford T módel árgerð 1927 sem Sæmundur Sigmundsson, fyrrum sérleyfishafi í Borgarnesi, lét gera upp á sínum tíma.

 

Safnið hefur  um nokkurt skeið haft bílinn til sýnis og er það Arion banka sérlega ánægjulegt að geta lagt sitt af mörkum til minjaverndar.

 

Bjarni Guðmundsson, forstöðumaður Landbúnaðarsafnsins, veitti bílnum móttöku og þakkaði höfðinglega gjöf.

 

Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri var styrktur um eina milljón kr. til þess að viðhalda gömlum byggingum á staðnum og fegra þær.

 

Ólafsdalsfélagið, sem stendur að endurgerð Búnaðarskólans í Ólafsdal, fékk einnig styrk að upphæð eina milljón kr til sinnar starfsemi.

 

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, hélt stutta tölu við tilefnið og vék m.a. að því að bankinn byggði á sögu, reynslu og starfskröftum fjögurra fjármálastofnanna: SPM, Búnaðarbankans, Kaupþings og SPRON.

 

„Rætur Arion banka liggja víða, meðal annars í sveitum landsins og þá ekki síst hér í Borgarfirði. Okkur þykir vænt um þessar rætur og gerum okkur grein fyrir mikilvægi þeirra stofnana sem á undan gengu, og þá ekki síst mikilvægi þeirra fyrir það samfélag sem þær voru hluti af. Saman mynda þessar stofnanir langa og margslungna sögu okkar banka, Arion banka,“ sagði Höskuldur."

 

Á meðfylgjandi mynd eru talið frá vinstri:

Bernhard Þór Bernhardsson, svæðisstjóri Arion banka, Bjarni Guðmundsson frá Landbúnaðarsafni Íslands, Ágúst Sigurðsson rektor LbhÍ, Örn Símonarson sem gerði upp Ford T bílinn, og einn fárra sem kann að aka honum, og Rögnvaldur Ólafsson frá Ólafsdalsfélaginu.