14. október 2011

Brýnt upp á borgfirsku...

Þótt flestir hafi nú lagt til hliðar sláttuamboð sín og áhöld og tekið til við haustverk klifar heimsíðungur enn um slátt. Hann er eiginlega með slátt og heyskap á heilanum.

Þannig var að á dögunum sat heimsíðungur og fletti gömlum myndum með miklum fræðaþul - raunar gömlum kennara sínum. Brá þá fyrir mynd af sláttumanni sem stóð og brýndi ljá sinn, ekki þó þeim sem meðfylgjandi mynd er af.

 

Þessi brýnir eins og Húnvetningur, sagði fræðaþulurinn ...

 

... og hóf síðan að skýra út fyrir mér hvernig hann hafði upplifað brýnsluhætti Borgfirðinga, Húnvetninga, Árnesinga og fleiri því hann hafði bernskur kynnst verkháttum sláttumanna úr ýmsum héruðum.

 

Ég hvessti blýant minn og hripaði niður lýsingu þularins. Kom mér þá í hug grein sem ég hafði nýlega lesið um brýsnluhætti norskra sláttumanna - og svei mér ef ekki svipaði saman nokkrum sjónarmiðum...

 

Nú velti ég því fyrir mér sem heimsíðungur hvort ekki sé einhver þarna úti í slægjunni sem vilji nú hugleiða málið og senda línu:

 

Hvernig brýndu sláttumenn í þínu ungdæmi?

- hvernig héldu þeir orfinu?

- við hvaða líkamspart studdist þjó ljásins, ef einhvern?

- hvernig og hvar héldu menn um ljáinn?

- í hve mörgum færum brýndum menn ljáinn?

- hvernig beittu menn brýninu?

- og fleira ...

 

Rifjast þá upp fyrir heimsíðungi viðbrögð við álíka spurningum sem hann hafði uppi fyrir margt löngu þar sem hann ræddi málið fræðilega og af töluverðum innblæstri. Ungur maður nálægur fylltist áhuga og vildi leggja sitt af mörkum til lausnar hinni vinnufræðilegu gátu - og hann spurði:

 

Studdu menn ekki þjóinu bara við þjóhnappana þegar þeir brýndu?

 

Tsjah, sagði heimsíðungur og lagði til eftir nokkra umhugsun að viðstaddir fengju sér meira kaffi... minnugur þess að maður á alltaf að vera fremur jákvæður og mæla bót hinum ólympíska anda.