19. október 2011

Heimsókn að Brusletto

Um miðjan september sl. fór heimsíðungur í leiðangur til Hallingdals í Noregi til þess einkum að kynna sér baksvið ljáanna sem gerðu svo mikla lukku hérlendis á velmektardögum Kristjáns konungs tíunda.

 

Smiðjan, sem ljáina sló, stóð á Brúarflötum á Geilo, efst í Hallingadal þar sem skíðafæri er betra á vetrum en í flestum öðrum plássum Mið-Noregs.

 

Þar hitti ég síðasta ljáasmiðinn sem komið hafði að smíði Eylands-ljáanna. Magnus Haugen heitir hann og er til vinstri á meðfylgjandi mynd. Í miðjunni stendur Ken Ove Nyhus, forstjóri smiðjunnar, sem ekki smíðar ljái lengur - aðeins hnífa og þá af dýrari sortinni (sjá www.brusletto.no ). Við stöndum þarna í smiðjunni á Brúarflötum.

 

Magnús hafði það sumarhlutverk fyrir stríð, þá aðeins um fermingu, að líma rauða miða á "Íslandsljáina" sem sérstaklega voru smíðaðir fyrir hina brottfluttu Norðmenn, sem nú höfðu um þúsund sumra skeið barið þúfur uppi undir heimskautsbaug og kallað slátt ... Á rauða miðanum stóð að þar færi EYLANDSLJÁR ...

 

Magnús minntist þess að settir voru 1000 ljáir í hvern trékassa, sem með miklum erfiðismunum var þokað á vagna lestarinnar til Björgvinjar sem fór um Geilo. Í Björgvin var kössunum skipað um borð í Íslandsfar. Ætla má að hver kassi hafi verið langt til 500 kg að þyngd.

 

Magnús átti síðan stóran þátt í endurhönnun aðferðar við ljáasmíði hjá Brusletto enda nafntogaður járnsmiður.

 

Við Magnús áttum við sláttumennirnir Hans Petter Evensen (sem tók myndina) og undirritaður langt viðtal sem við skráðum. Er það hluti af heimildakönnun okkar vegna sameiginlegrar rannsóknar okkar á hinni norsk-íslensku sláttuarfleifð.

 

Það var Árni G. Eylands sem kom á samskiptum Íslands við Brúarflatasmiðjuna á árunum 1923-1925. Árni gaf ráð um smíðina.  Traust vinátta skapaðist með Árna og Brusletto forstjóra eins og bréfaskipti þeirra sýna.

 

Bréfin, sem varðveitt eru í stórmerku skjalasafni Árna, eru merkileg heimild um sláttusögu Íslendinga á 20. öld. Ef til verður sú saga rakin nánar þegar tímar líða ...

 

Heimsíðungur minnir hins vegar á síðustu fyrirspurn sína, hún varðaði brýnsluaðferðir.

 

Brúarflatabændur lögðu ríka áherslu á á sínum tíma að brýnt væri með mjúkum brýnum, skrifuðu þeir Árna.