25. október 2011

Fornvélafundur í Skagafirði

Nk. fimmtudagskvöld 27. okt. verður blásið til fundar að Ljósheimum í Skagafirði til þess að fjalla um fornvélar, sbr. hjálagða auglýsingu.

 

Þar mun Sigurður Skarphéðinsson kynna Ferguson-félagið: ákaflega merkileg samtök sem hafa átt stóran þátt í því að efla áhuga manna á og virðingu fyrir fornum dráttarvélum, einkum þó af gerðinni Ferguson - og með seinni breytingum á henni.

 

 

 

Á fundinum mun Bjarni Guðmundsson, heimsíðungur og ábyrgðarmaður Landbúnaðarsafns Íslands einnig segja nokkrar sögur af Farmal og Ferguson og hafa skyggnulýsingu þeim skylda.

 

Bjarni mun hafa meðferðis nokkur eintök af bókunum ...og svo kom Ferguson og Alltaf er Farmall fremstur, sem forlagið Uppheimar (www.uppheimar.is ) hefur gefið út í samvinnu við Landbúnaðarsafn Íslands.  Verðar þær báðar falar með og án áritunar höfundar, á fundarverði.

 

Allir eru velkomnir á fundinn á meðan húsrúm leyfir. Ekki er víst að þar verði sungið og spilað á sítar og mandólín tvö, eins og Steinn Steinar kvað um annan fund viðbætandi ...æ komdu og höndlaðu herrann, það hest klukkan rúmlega sjö...  nei, annars fundurinn hefst kl. 20.30, sjá auglýsinguna...

 

Upplagt er að slaka á frá vambasaumi, hrútastússi og hrossaslátrun, og eiga kvöldstund með fornvélamönnum þar í Ljósheimum sem eru snoturt félagsheimili sunnanvert á Stór-Sauðárkrókssvæðinu.