14. nóvember 2011

Jarðnafar, arfgengi, fertala og svarðhlið - Á degi íslenskrar tungu

Í tilefni Dags íslenskrar tungu, 16. nóvember, hefur verið tekin sama grein um landbúnaðartengda orðasmíði og íðorð. Greinina er að finna í B-deild Plógs - vefrits Landbúnaðarsafns. Þú finnur hana undir nafni og merki Plógsins hér til vinstri á síðunni, sjá líka http://www.landbunadarsafn.is/Files/Skra_0051036.pdf  

 

Í greininni er m.a. fjallað um það hvernig ný orð, heiti og hugtök urðu til við komu ýmissa nýjunga á sviði landbúnaðar. Bæði hefur þar verið um að ræða áþreifanlega hluti en líka óáþreifanlega, svo sem nýja þekkingu og hugtök hennar.

 

Útdráttur úr greininni fylgir hér á eftir en annars er vísað til meginefnis hennar:

 

Í greininni er rætt um það hvernig innflutningi erlendrar búfræðiþekkingar og áþreifanlegri hluta hefur fylgt smíði nýyrða og lögun tungumálsins að nýjungunum.

 

Tekin eru nokkur dæmi um það frá ýmsum tímum svo og minnst aðila sem höfðu þar mikil áhrif. Því má halda fram að þróun tungunnar og þróun hinna ýmsu fagsviða landbúnaðarins hafi fylgst merkilega vel að hvað snertir hugtakanotkun og miðlun fræðanna.

 

Tekið er undir ríflega sextuga ábendingu Jóns prófessors Helgasonar um að mikilvægara sé að gæta grundvallarreglna í meðferð hins almenna hluta tungumálsins en að amast við erlendum orðum ef þau falla vel inn í íslensk beygingakerfi og hafa þekkilega hljóðasamsetningu.

 

Loks er áréttuð ábyrgð kennslustofnunar eins og Landbúnaðarháskóla  Íslands gagnvart þróun fagmáls og mótun þess í nýjum fræði- og kennslugreinum.  

 

Ábyrgðin snertir líka þá varðveislu menningarminja sem Landbúnaðar-safn Íslands er sett til þess að gæta.