25. nóvember 2011

Gormgirðingarstaurs-tíðindi

Vart hafði efnið um girðingarstaurinn, frá því í fyrradag, sest til á heimasíðunni, er fróðleikur tók að berast.

 

Svörin, sem komin eru, má lesa hér á eftir. Hins vegar hvetjum við lesendur er enn luma á fróðleik um viðfangsefnið að senda okkur línu.  Allan slíkan þiggjum við með þökkum.  

 

Mosfellingur skrifaði:

Svona girðingarstaurar eins þú ert að fjalla um á síðunni  voru  nokkuð algengir hér í Mosfellssveitinni eftir stríð.  Sennilega eru þeir komnir frá Kananum enda voru umsvif þeirra mikil hér í Sveitinni eins og þú veist. Gott ef ég sá ekki svona staura  á Hvítanesi í Hvalfirði fyrir nokkrum árum.

 

Eyfirskur heimildarmaður skrifaði:

 

Ég held að þetta séu staurar frá hernámsárunum, ég man eftir svona þegar ég var lítill strákur en fyrir ca. 5 árum fann (ég) svona í Krossanesborgum einmitt þar sem Bretinn var með aðstöðu.

 

Heimildarkona  með sambönd vestur um haf skrifaði:

 

Ég spurðist fyrir hjá kunningjum mínum í Bandaríkjunum sem hafa verið þar í sjóher og her. Sá sem var í hernum segist kannast við staura af þessu tagi frá Bretum í hernaðarbrölti, og að þeir kalli þá screw picket eða pigtail. Þannig að það er ekki langsótt að staurinn hafi komið með Breska hernum heim á Frón.

 

Hrútfirðingur ritaði: Kannast við þessa að heiman, Hrútafirði. Þar er breski gaddavírinn enn til í girðingum.

 

Brottflutningur Borgfirðingur ritaði:  Man það voru nokkrir slíkir heima á ....  fyrir 30 árum eða svo. Eru allir komnir undir græna torfu því miður.

 

Heimildarmaður í Kaldakinn skrifaði: .... það voru til svona staurar hérna, pabbi sagði að þetta væri frá hernum.

 

Heimildarkona, að ég held á höfuðborgarsvæðinu, skrifaði: ...man eftir nokkrum svona í Fossvoginum meðan hann var útnári úr Reykjavík hvaðan þeir komu veit ég ekki.

 

Ályktun:

 

Stauragerðin var útbreidd og allvel þekkt hérlendis

Stauragerðin var komin frá hernum – sennilega þeim breska

Stauragerðinni fylgdi líklega tilsvarandi vörsluvír, og nú vantar okkur bara nokkra lengdar metra af honum......