16. desember 2011

Vaxandi áhugi fyrir fornvélum af Farmal-gerð

Heimsíðungur var á ágætum fundi Ferguson-félagsins á dögunum suðrí Mosó (sjá http://ferguson-felagid.com/) þar sem fram fór m.a. kynning á bókinni um Farmal.  Hitti  heimsíðungur þá nokkra heiðursmenn sem hafa þegar eða eru að pússa upp dráttarvélar frá IHC.

 

Sýnilega er um mikinn áhuga fyrir þessu jólalitu dráttarvélum að ræða, því undanfarna mánuði hefur skrifari einnig spurt fjölda dæma um hann.

 

Tilfinning vor er sú að Kubburinn sé vinælastur IHC-fornvéla til umhirðu, enda fer hann vel í litlu rými, en fast á eftir koma Farmall A og einhver hinna þýsku díselgerða sem hingað bárust um og upp úr miðjum sjötta áratugnum: Makalaust góðar dráttarvélar, margar hverjar. 

 

Þá má ekki gleyma hinni stílhreinu bresku B 414. Æ fleiri dæmi berast um uppgerð hennar og sinnu. Falleg vél, þótt gæti verið nokkuð harðgeng og þyngslaleg - á móti dró hún heil ósköp enda nýtti hún afl sitt til þeirra verka vel.

 

Tækifærið skal ekki látið ónotað - enn einu sinni - að minna menn á að halda til haga verkfærunum sem dráttarvélunum tilheyrðu, bókum og bæklingum, sölunótum, ljósmyndum og raunar hverju því sem sögu vélarinnar tilheyrir og markar henni sérstöðu.

 

Nefna má sérstaklega að spurn eftir Farmal-sláttuvélum (Cub en einkum A ...) er töluverð. Hver sá sem slíka á eða ræfil úr henni er hvattur til þess að varðveita hana - eða koma í hendur traustum uppgerðarmanni og sinnanda.

 

Í mörgu var "Farmall" nefnilega fremstur...