20. desember 2011

Jólakveðja frá Landbúnaðarsafni

Nú þegar sól snýr róli sínu og boðar komu jóla sendir Landbúnaðarsafn öllum sem leið eiga og hafa átt um þessa síðu bestu óskir um gleðiríka en kyrrláta hátíð.

 

Allir þeir, sem öldnum vélum unna og hafa með þeim unnið, vita hversu notalegt það er að "drepa á" dráttarvélinni, stíga af henni og njóta kyrrðarinnar sem til verður:

 

Veröldin slakar á, dregur nös, og  maður sjálfur gerir það sama: 

 

Eins eru jólin, stundin þegar togað er í "ádreparann" og efnt til kyrrðar í önn dagsins. Kyrrðin hvílir og endurnærir af því að hún vekur nýja hugsun - hugsun sem hefur okkur yfir hvunndaginn:

 

Hugsun um það hver við erum og hverra við erum? Síbylja mótors og gangverks hinna starfsríku daga þagnar um stund og afl og óskir eigin huga taka við ...

 

Farmal-rauði jólasveinninn, sem á myndinni öslar snjóinn á moksturstækjasettri dráttarvél sinni af óræðri en ef til vill grárri og hversdagslegri tegund, ber fram og minnir okkur á ljósið sem eflir og hvetur, ljósið eilífa...

 

Í því ljósi felast óskir Landbúnaðarsafns til ykkar um gleðilega jólahátíð.