2. janúar 2012

Gleðilegt ár 2012 - Ár orfs og ljáa

 Í Landbúnaðarsafni Íslands hefur árið 2012 verið valið ár orfs og ljáa. Ber þar ýmislegt til: Áhöldin eru ásamt árinni ein mikilvægustu áhöld Íslendinga utan stokks á sögutíma þjóðarinnar.

 

Í meira en 1020 ár af þeim 1138, sem talin eru mynda þjóðarsöguna (90%), voru orfið og ljárinn einustu áhöldin, er menn höfðu til þess að losa gras af rót - og afla þannig vetrarforða er öllum heimilum landsins var nauðsynlegur.

 

Á árinu 2012 eru rétt 80 ár liðin frá því Sveinbjörn Jónsson, síðar í Ofnasmiðjunni, hvattur af Steinunni Frímannsdóttur, kom fram með orf úr áli (aluminium). Þau þóttu athyglisverð nýjung, sennilega einstæð á heimsvísu - þótt heimsíðungur þori ekki að fullyrða um það að svo stöddu.

 

Á árinu 2012 eru um 90 ár síðan fyrstu Brusletto-ljáirnir, er síðar kölluðust Eylands-ljáir, tóku að breiðast út hérlendis.

 

Loks er því við að bæta að 145 ár eru liðin árið 2012 síðan hinum ensku ljáblöðum, sem Torfi Bjarnason kom með frá Skotlandi, var fyrst brugðið í íslenskt gras með árangri, er síðar markaði eina mestu búháttabyltingu hérlendis.

 

Engar yfirlýsingar verða að svo stöddu gefnar út um það hvernig ár orfs og ljáa verður markað í Landbúnaðarsafni. Það verður kynnt eftir ástæðum og þörfum.

 

Með myndhverfum hætti er þess óskað að öllum megi bíta vel á hinu nýja ári, í hæfilegri rekju, að slægjulönd þeirra verð ljáþýð og greiðfær, svo vel skárist grasþykkum múgum...