10. janúar 2012

Fönguleg Ford-dráttarvél 1949

Í fyrravor bættist Landbúnaðarsafni Íslands fönguleg Ford-dráttarvél, sú fyrsta sinnar gerðar (8N) sem flutt var inn árið 1949. Hún var skroppin úr samnefndri smiðju Vestanhafs og tengdist heimfrægu þrefi Íranna Fords og Fergusonar. Áhugasamir geta lesið um það m.a.  í bókinni ...og svo kom Ferguson.

 

Ford-dráttarvélin kom í Garðyrkjuskólann að Reykjum í Ölfusi og var notuð þar alla tíð. Jafn lengi fékk hún þar afar góða hirðu. Í fyrra kom hún svo í safnið, við afhendingu Árna-safnsins þar eystra til Landbúnaðarsafns,  eftir að Guðjón Helgi Ólafsson starfsmaður LbhÍ á Reykjum hafði farið höndum um hana.

 

Í haust tók Jóhannes Ellertsson vélameistari Ford-dráttarvélina til hressingar. Hann pússaði hana vandlega upp en þó þannig að vel sæist að um notaða dráttarvél er að ræða. Hann og Haukur Þórðarson vélakennari sprautuðu síðan hlífar allar í réttum litum.

 

Nú lítur Ford-dráttarvélin afar vel út, þótt 63 ára sé, rétt eins og meðfylgjandi mynd gefur til kynna.

 

Þótt sárafáar dráttarvélar þessarar gerðar hafi komið til landsins verður hlutverk Ford-dráttarvélarinnar í safninu fyrst og fremst að minna á skyldleikann við Ferguson, og hina sameiginlega heimssögu þeirra stórmerku dráttarvélasmiða, Ford og Ferguson.

 

Saman hugðust þeir sigra heiminn á þessu sviði og voru vel á veg komnir með það. Kynslóðaskipti og skoðanamunur af honum sprottinn hratt af stað deilum þeirra, sem báðir málsaðilar töpuðu eiginlega á.

 

Gestum safnsins mun brátt gefast tækifæri til þess að bera dráttarvélar þessar tvær saman: Þegar maður situr undir stýri á Ford 8N (sem er gerðarheiti þessarar dráttarvélar) veltir maður því fyrir hver í raun og sann var munurinn á Ford og Ferguson TEA-20?

 

Hann var nokkur. Þess vegna er Ferguson Ferguson og Fordinn Ford.

 

Það var Sveinn Egilsson hf sem flutti dráttarvélina inn. Fyrirtækið auglýsti Ford-dráttarvélar nokkuð á sínum tíma, en þær auglýsingar máttu sín lítils. Fyrirtæki með beinni tengsl við bændur höfðu betur í viðskiptakapphlaupinu ...

 

Vitað er um aðra Ford-dráttarvél þessarar gerðar sem pússuð hefur verið fagurlega upp.

 

Aðeins 15 dráttarvélar þessarar gerðar komu til landsins, allar á árunum 1949-1951.