21. janúar 2012

Stríð og landvarnir við borgfirskan engjaheyskap

Nú er Ragnhildur Helga Jónsdóttir land- og umhverfisfræðingur að leggja lokahönd á skýrslu um nýtingu flæðiengja í Borgarfirði á síðustu öld sem hún hefur unnið með Landbúnaðarsafni og Laxveiði- og sögusafninu í Ferjukoti.  Frá verkefninu hefur fyrr verið sagt hér á síðunni.

 

 

Á dögunum kom hann Pétur Jónsson á Hvanneyri, einn af traustustu velvildarmönnum Landbúnaðarsafns færandi hendi.

 

Hann færði safninu tvær eftirgerðir sínar af straumlokum sem fyrr á tíð voru notaðar til þess að hafa stjórn á straumum svo ekki flæddi til skaða við engjaheyskapinn.

 

Pétur er fæddur og alinn upp á Innri-Skeljabrekku í Andakíl, sem er mikil engjajörð. Pétur man vel síðustu ár engjanýtingarinnar og þar með talið þá verktækni sem notuð var til þess að stjórna vatnafari á slægjulöndum. Verða henni gerð nokkur skil í áðurnefndri skýrslu.

 

Á meðfylgjandi mynd sjáum við Pétur með aðra lokuna, og á teikningunni er gefið til kynna hvernig henni var komið fyrir. Lokan sá til þess að vatnið gat runnið af og frá slægjulandinu þegar lágsjávað var en ekki inn þegar hækkaði við hvern straum.

 

Þannig og með flóðgörðum, sem við sjáum þarna tákngerða, gafst  yfirleitt friður til þess að sinna heyverkum þótt hækkaði sjávarstaðan...

 

Töluvert verk var að koma þessum búnaði fyrir ár hvert. Það var hluti engjanýtingarinnar, sem við fáum brátt að heyra um þegar áðurnefnd skýrsla kemur út.

 

Vitað er að svipaður búnaður var notaður á fleiri heyskaparjörðum þar sem flæðihætta var. Einn tilgangur skýrslunnar er að hvetja til þess að gerðar verði hliðstæðar kannanir og minjaskráning í öðrum sveitum.