27. febrúar 2012

22 calibera hestasláttuvélaþjóðfræðiþáttur

Ekki eru allir hlutir í þessari veröld stórir. Það sannaðist nýlega þegar í hús kom viðbótarfróðleikur um hestasláttuvélar, en eins og minnugir vita vinnur safnið að söfnun fróðleiks um notkun hestasláttuvéla - á grundvelli sérstakrar spurningaskrár, sem finna má hér.

 

Fróðleiksmolinn, sem hér verður greint frá, snýst um heyskúffu, sem margir settu á greiðu sláttuvélanna til þess að safna heyinu saman strax við sláttinn og spara þannig umtalverðan rakstur.

 

Botn heyskúffanna (sjá mynd) var ýmist flatjárnsteinar ellegar snæri. Snæri þótti mörum mun liprara því þannig var víst léttara að draga skúffurnar.

 

Nú voru það fleiri en Jón Hreggviðsson á Rein sem komust í hann krappan þegar snæri var annars vegar, því bændum þótti sem endar snærisspottanna, er mynduðu botn skúffunnar, trosnuðu fljótt upp og slitnuðu síðan úr hófi fram. Gott snæri var dýrt og því til nokkurs að vinna að auka endingu þess.

 

Norðlenskur bóndi fann á þeim vanda einfalda lausn: Við margvíslegt skytterí heimilinu til matbjargar hafði honum safnast töluvert af 22 kalibera patrónum, sem hann að sjálfsögu hélt til haga.

 

Þessar patrónur festi hann nostursamlega (á þeirri tíð höfðu menn nfl tíma til þess að vinna verk sem gátu skipt máli þó ekki væru öll stór) á enda snæranna, sem við það fengu ágæta trosnunarvörn.

 

Hún svínvirkaði að sögn heimildarmanns.

 

Með þessum fróðleik hafa orðið til tvær-þrjár línur í hina íslensku hestasláttuvélaþjóðfræði tuttugustu aldar.

 

Vitanlega skiptir fróðleikurinn litlu máli úr þessu en gott er að vita að skotfæri má stundum nota til friðsamlegra verka - sbr. púðrið hans Nobels, nema hvað þar misnotuðu menn síðar efnið sem í upphafi var ætlað til friðsamlegra nota.

 

Hér var hins vegar farin "hin leiðin". Hún hefur reynst fleirum en Eysteini vel.