8. mars 2004

200 ára gömul sláttuþyrla!

Stundum er sagt að ekkert sé nýtt undir sólinni. Það virðist eiga allvel við í véltækni landbúnaðar. Ýmsar tækninýjungar, sem miklu hafa breytt, virðast, þegar betur er að gáð, hafa átt sér lengri sögu: einhver hafði rambað á hugmyndina löngu fyrr en eitthvað skort á að hún gæti orðið að veruleika: oftar en ekki virðist það hafa verið að hæfilegt hráefni (t.d. stál) vantaði eða þá að tiltækt afl var ekki nóg til þess að knýja tækið. Ytri skilyrði kunna einnig að hafa ráðið, t.d. það að verkhefðir voru of ríkar til þess að breytingar gætu orðið eða þá að búskapar-„kerfin” leyfðu ekki þær breytingar sem tækið gat leitt til, t.d. bústærð, viðhorf til vinnunnar ofl.

 

Dæmi um hugmynd, sem lengi lá ónotuð, er sláttuþyrlan algengasta gerð sláttuvéla hérlendis í dag. Hún kom til Íslands um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar og breiddist út um allt land á einum 4-5 árum – réttum hundrað árum eftir að Torfa-ljárinn svonefndi nam land hérlendis með hliðstæðum hraða og jók stórlega sláttuafköst bænda og kaupamanna!

 

Grunnhugmynd sláttuþyrlunnar: skífa með útstæðum hnífum er snerist lárétt á miklum hraða leit dagsins ljós fyrir tæpum 200 árum. Vélin var ætluð til kornsláttar, knúin hestafli. Skoskur maður að nafni Smith of Deanston (Smiður frá Klerkasteini) vann til verðlauna fyrir hana árið 1812 hjá Dalkeith Farming Society – Búnaðarfélagi Dalkeiths, og árið eftir einnig. Smiður rak bómullarverksmiðju og má vera að sú reynsla hans hafi kveikt hugmyndina. Við birtum mynd af þessari merkilegu vél hér á síðunni.

 

Ástæðan fyrir því að hin frumlega sláttuvél náði ekki útbreiðslu er talin hafa verið annir Smiðs við annan iðnrekstur og fálæti samferðamanna og takmörkuð hvatning þeirra til hugvitsmannsins að fullgera hugmyndina – ekki óþekkt hlutskipti hugvitsmanna. Fór svo að sláttuþyrla Smiðs hafnaði á safni (Technological Museum), að því er segir í heimild okkar (G.E.Fussel: The History of Farmers Tools, bls. 118-119. Bloomsbury Books, 1985).