5. mars 2012

Ferguson-dreifari - Nýmóðins fyrir meira en hálfri öld

Það er enn spölur til vors en samt eru menn farnir að huga að ávinnslu og áburði. Á dögunum lauk hann Jói Ellerts við að pússa upp áburðardreifara - Ferguson þyrildreifara, sem safninu áskotnaðist sl. haust.

 

 

Með Ferguson-dráttarvélum mátti sem kunnugt er fá fjölbreytt verkfæri, flest á þrítengibeisli vélarinnar,  þ.á.m. dreifara fyrir tilbúinn áburð. Þessi dreifaragerð var kölluð þyrildreifari eftir vinnulagi hennar.

 

Hún var bylting í gerð áburðardreifara á sinni tíð. Henni var eiginlega ætlað að líkja eftir vinnu sáðmannsins; náði því þó ekki að sama marki og kastdreifararnir gerðu - dreifararnir með stútnum sérstæða frá Vicon.

 

Þyrlidreifararnir þóttu bæði einfaldir og ódýrir og með réttri beitingu dreifðu þeir þolanlega jafnt og vel. Liprir þóttu þeir miðað við eldri gerðir – sáld- og skáladreifarana.

 

Ferguson-áburðardreifarinn, sem hér um ræðir, er frá allra fyrstu árum þyrildreifaranna hérlendis, keyptur 1957 eða 58.

 

Áburðardreifarinn kom fyrst að Saltvík í S.-Þing. en þar bjuggu þau Sigurdrífa og Páll Guðmundsson með börnum sínum. Skömmu seinna flutti fjölskyldan austur að Eiðum.

 

Kom dreifarinn sér vel undir hluta af búslóð fjölskyldunnar við flutninginn síðasta spölinn, landveginn frá Reyðarfirði í Eiða. Árið 1962 flutti fjölskyldan enn búferlum; nú að Syðri-Völlum í V.-Hún. þar sem dreifarinn sinnti hlutverki sínu allt til ársins 1970.

 

Hlífiskildi var haldið yfir áburðardreifaranum, síðast af ábúendum á Syðri-Völlum, þeim Pálma Geir og Ingunni Reynisdóttur. Þau gáfu safninu gripinn.

 

Jóhannes Ellertsson vélameistari safnsins pússaði gripinn upp veturinn 2012, svo nú er hann sem nýr.

 

Það var Björn Pálsson frá Syðri-Völlum, lengi skjalavörður á Selfossi, sem vísaði okkur á gripinn og skrifaði ævisögu hans fyrir okkur. Sagan er full helft af safnvirði gripsins.

 

Landbúnaðarsafn þakkar öllum sem komu að varðveislu þessa sögumerka grips - og ekki spillir að hann skuli vera hinnar gráu Ferguson-gerðar.