27. mars 2012

Sagnakvöld til heiðurs Gunnari Bjarnasyni

Fimmtudagskvöldið, 29. mars nk., verður á Hvanneyri efni til sagnakvöldvöku til heiðurs Gunnar Bjarnasyni kennara og ráðunaut (1915-1998). Vakan hefst kl. 20 og verður haldin í Ásgarði - aðalbyggingu Landbúnaðarháskólans.

 

Á vökunni munu sagnamenn minnast kynna sinna af Gunnari, sem var einn af litríkustu persónum sinnar tíðar. Um margt markaði hann spor í sögu landbúnaðarins; umdeildur að sönnu, en hugmyndaríkur og oft framsýnni en aðrir.

 

Tveir merkustu karlakórar í Heimi munu einnig koma fram á sagnakvöldinu og léttar veitingar ekki langt undan.

 

Njósn hefur borist af því að allmargir vinir og kunningjar Gunnars muni ætla að sækja sagnakvöldið og því er betra að mæta með fyrra fallinu.

 

Heimsíðungur hefur komist yfir brot úr bálki eins sögumannsins, er sá hyggst umbeðinn flytja á sagnakvöldinu. Segir brotið nokkuð um hinn frjóa hug, sem Gunnar átti á sínum ævidögum:

 

„Tek að mér að framleiða margs konar hugmyndir. Gunnar Bjarnason“:  hugðust Bændaskóla-nemendur auglýsa á árshátíð sinni 1. des. 1964. Já, Gunnari datt margt í hug: Ekki bara göng undir Hvalfjörð þegar aðrir vildu damla þverfirðis með ferju eða paufast yfir á brú. Ristarflórarnir sem Gunnar þróaði í góðu kompaníi annarra hugvitsmanna hér á Hvanneyri. Og nýja fjárhúsgerð með honum Gísla á Hofi í Vatnsdal, svo bara fátt eitt sé nefnt...