4. apríl 2012

Ljábakki og skautar

Við hétum því um áramótin síðustu að nokkuð yrði vikið að orfum og ljáum á þessu ári - enda ríkir nú ár orfs og ljáa.

 

Landbúnaðarsafn Íslands á marga velvildarmenn víða um land sem láta sig málefnis safnsins varða með ýmsum hætti. 

 

Sunnlenskur maður ágætur úr þessum hópi hafði samband við heimsíðung á dögunum og sagði honum dálitla þjóðháttasögu um ljái - og þó fremur ljábakka.

 

Hún fer hér á eftir.

 

Sigfús Öfjörð var þekktur maður á sinni tíð. Hann bjó í Norðurkoti í Flóa, þar sem síðar hét að Lækjamóti.

 

Sigfús varð hvað þekktastur fyrir vélarekstur sinn. Frá honum er m.a. sagt í bókinni Alltaf er Farmall fremstur og þá fyrir þann þátt sem Sigfús átti í því að fá til landsins fyrstu ræktunarýtuna - TD 9 frá International Harvester Co.

 

Á árunum um og upp úr 1930 voru nýjar gerðir ljáa að ryðja hinum ensku ljáblöðum til hliðar: Bakkaljáirnir voru að víkja fyrir norskum einjárnungum - Eylandsljáunum einkanlega.

 

Heimildarmaður okkar greindi þá frá því að Sigfús Öfjörð, sem var bæði hagur smiður og afar hugmyndríkur, hafi þá tekið upp á því að smíða skauta úr hinum gömlu ljábökkum.

 

Unga fólkið í nágrenni Sigfúsar naut góðs af smíði hans og hóf að renna sér um bláa ísa Flóans á skautum úr járni sem áður hafði borið uppi ljái þá er skáru starir og annan gróður á því sama landi oft og tíðum.

 

Hver veit nema ennþá leynist skautar þar í Flóanum er urðu til með þeim hætti?

 

Veit einhver um slíka skauta????

 

Frásögnin er dæmi um þá nýtingu og nytjahugsun er einkenndi fyrri tíma. Málmur var dýr. Verðmætum var ekki hent. Þau voru endurnýtt. Við þá endurnýtingu var það aðeins hugmyndaflugið sem takmörkin setti.