6. maí 2012

Til kirkju á forntraktorum - Hugmynd til biskups

Vitanlega er Landbúnaðarsafn virðulegt safn sem tekur hlutvek sitt alvarlega, en í millum leyfir heimsíðungur sér samt að víkja ögn af hinni hefðbundnu braut fræða og fagmennsku.

 

Í dag sá hann nefnilega frétt í Kvöldpóstinum norska frá Grímstað er gekk út á það að bændur og aðrir hefðu ekið til kirkju á traktorum, m.a. forntraktorum af vel þekktri tegund.

 

Það er gaman að aka til voranna-guðsþjónustu á dráttarvél, sagði hann Arnfinn Bjørkegra frá Tjore.

 

Kirkjukaffið tók hann með sér heim því nú verður að nýta hverja stund, sagði Arnfinnur - hann ætlaði að njóta þess á heimleiðinni.

 

Sóknarpresturinn, séra Tom Martin Berntsen, stóð undir kirkjuveggnum og brosti sem sólin er hann sá hverja dráttarvélina af annarri tifa inn á bílastæðið. Þarna er um að ræða tíu ára langa hefð.

 

Í prédikuninni beindi klerkur athygli að öllu því sem hefur með vorverk og búskap að gera, sjá nánar á http://www.fvn.no/lokalt/grimstad/Med-traktor-til-Guds-hus-2219381.html

 

Með því að nýkjörinn biskup yfir Íslandi sr. Agnes M. Sigurðardóttir var um árabil prestur í Hvanneyrarprestakalli sýnist upplagt, um leið og henni er óskað heilla, að stinga upp á því við hana að hún bjóði við hentugleik upp á forntraktora-messu í Hvanneyrarkirkju einn sælan hásumars-sunnudag, í hverri lofa bæri og þakka gæsku gjafarans sem enn eitt árið sýnist ætla að færa oss góðan ávöxt ræktað lands og annars gróðurlendis ...