10. maí 2012

Er Þúfnabaninn loks að komast í hús? - Styrkur Menningarráðs Vesturlands

 

Menningarráð Vesturlands (www.menningarviti.is ) hefur veitt Landbúnaðarsafni Íslands myndarlegan fjárstyrk.

 

Styrkurinn er til þess að laga húsnæði í hinu svokallaða Halldórsfjósi á Hvanneyri fyrir fyrsta áfanga varanlegrar sýningar safnsins.

 

Byggingin var reist árið 1928 yfir 80 kýr, gerð eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar húsameistara. 

 

Umsóknin varðaði tvennt:

 

A: Að laga gólf sýningarrýmisins að þörfum grunnsýningar Landbúnaðarsafns. Þar er um að ræða gólfið sem áður voru básar og flórar en eiga nú að verða gönguleiðir og fletir undir sýningargripi.

 

B:  Gróffrágangur gólfs í norðurhluta fjóshlöðunnar og aðgangur að því. Í þessu rými er m.a. gert ráð fyrir framtíðarverustað Þúfnabanans, aflvélarinnar sem hratt af stað vélvæðingu við túnrækt hérlendis, en Þúfnabaninn hefur of  lengi  verið á hrakhólum.

 

Við breytingarnar er leitast við að raska frumgerð hússins sem minnst, enda má segja að fjósið sé stærsti safngripurinn. Sigríður Sigþórsdóttir arkitekt (www.basalt.is ) hefur yfirumsjón með þeim verkum.

 

Fasteignir ríkisins (www.fastrik.is ) eiga Halldórsfjós og annast um ytra byrði þess og hluta af föstum innri hlutum hússins.  

 

Landbúnaðarsafn hefur samningsbundin leiguafnot af húsinu er mynda á kjarna safnsins til framtíðar. 

 

Í næsta nágrenni þess er  fjöldi menningarminja um búnaðar- og ræktunarhætti, svo og íslenska húsagerðarlist fyrri ára, auk hins sérstæða og fjölbreytta náttúrufars sem einkennir hjartlendi Borgarfjarðar.

 

Stefnt er að því að opna nýja sýningu Landbúnaðarsafns í Halldórsfjósi í apríl 2013. Þakkarverður styrkur Menningarráðs Vesturlands eykur líkur á því að það muni takast.