16. maí 2012

... að Ford vélasmiðr hafi tekið að smíða plógvagna (tractors) ...

Það skal viðurkennt að heimsíðungur ræður sér vart þessa dagana vegna ágætrar frammistöðu fót-ballar-félags í nálægu sjávarplássi svo minnir á forna frægð þar í vör. 

 

En það er fleira af fornri frægð. Fyrir 95 árum var margt að gerast í búnaðarmálum Íslands. Vorið 1917 var heilmikið skrafað og skrifað um möguleika á því að fá til landsins dráttarvélar - traktora.

 

Í ljósi þess að heimsíðungur er að stympast við þá margbrotnu sögu verður hér getið örkafla úr henni:

 

2. apríl 1917 sat stjórn Búnaðarfélags Íslands á fundi og skrifaði bréf er þannig hófst:

 

Vér höfum séð þess getið í blöðum og hyggjum það satt vera, að Ford vélasmiðr hafi tekið að smíða plógvagna (tractors), sem taki öðrum fram. Vér vildum mega fara þess á leit við yðr, að þér látið oss í té sem bestar upplýsingar um vagna þess, uppdrætti af þeim, verð, þyngd, afl og olíueyðslu ...

 

Og bréfið var stílað til Páls Stefánssonar frá Þverá sem þá hafði einkasölu fyrir Ford á Íslandi. Myndin, sem þessari klausu fylgir, er raunar af Páli (t.v.) og Skafta fósturbróður hans. Myndina á og útvegaði Jóhannes Helgason á Hamri í Þverárhlíð. 

 

Um þetta leyti kynnti Páll Ford-bíla í gríð og erg, sem hann í auglýsingu kvað aldrei bregðast því trausti "sem til þeirra er borið".

 

Búnaðarfélagsmenn höfðu sýnilega fylgst með þróun heimsmála því í þennan mund voru ekki margir mánuðir liðnir frá því að Fordson-dráttarvélin stóð tilbúin í nær fimmtugustu frumgerð sinni þar vestra (Fordson F).  Við getum í dag sagt að það hafi verið "frumtraktorinn" - faðir nútíma dráttarvélarinna, sem eldskírn sína hlaut og aðkenning að fullkomnun með tilkomu viðbótarinnar frá Ferguson.

 

Páll fékk hins vegar ekki Fordson-dráttarvél til landsins fyrr en þremur árum seinna, og svo fór að hún lenti í skugga Þúfnabanans um árabil ...

 

... og margt fleira gerðist, m.a. kom Avery-traktorinn upp á Skaga - Akraness-traktorinn, sem svo er gjarnan nefndur. Þá voru Skagamenn í sókn ekki síður en í dag ....