11. júní 2012

Unnsteinn og steinarnir

Grjót auk torfs var helsta byggingarefni Íslendinga um aldir. Margir urðu því meistarar í þeirri list að hlaða úr torfi og grjóti, veggi og garða. Aðrir urðu það ekki. Hleðsla úr torfi og grjóti er partur af menningarsögu okkar - og búskaparsögu.

 

Þessa dagana er hann Unnsteinn Elíasson hleðslumeistari frá Ferjubakka að hlaða vegg á Hvanneyri sem marka mun tröðina á milli skólastjórahússins og Skemmunnar, elsta hússins á staðnum (1896).

 

Eins og þið sjáið af myndunum er hér listilega að verki staðið, enda Unnsteinn enginn byrjandi í greininni - hefur stundað verkið í tuttugu ár þótt ungur sé.

 

Verkið er raunar hluti af kennslu við LbhÍ og þarna var haldið námskeið á dögunum undir stjórn þeirra Unnsteins og Kára Aðalsteinssonar garðyrkjumeistara og garðyrkjustjóra LbhÍ. 

 

Þess má geta að Unnsteinn er einnig nemandi við LbhÍ. Hleðslulistina nam hann af frænda sínum og afa, Austur-Barðstrendingum, sem voru og eru afar vel kunnandi á þessu sviði. Þeir frændur eru mjög eftirsóttir til þessara verka.

 

Brátt mun afhjúpað á Hvanneyri minnismerki sem Unnsteinn hefur gert grunninn að - sérlega fallegt verk sem sagt verður frá í fyllingu tímans.

 

Þótt flestir torf- og grjótveggir hafi orðið tímans tönn að bráð sem og tönnum TD 6, TD 9, TD 14 og CAT af ýmsum númerum  leynast enn veggbrot, sem reisa má við, sem og staðir þar sem má halda þessum merkilega menningararfi til haga með endurnýjun mannvirkja en þó frekar kunnáttu.

 

Hleðsluhættir voru mismunandi á milli héraða enda hráefni og aðrar aðstæður breytilegar. 

 

Heimsíðungur hvetur lesendur til þess að leita að föllnum vegg á heimaslóð þeirra og reisa hann við eða hlaða nýjan. Hann þarf ekki að vera stór. Tveir steinar, hvað þá þrír, sem stilltir hafa verið af innbyrðis af listfengi og hagleik eru til dæmis fullburða vísir að vegg.

 

Skoðið bara myndirnar og sjáið hvernig hann Unnsteinn hefur agað steinana sína svo verða munu til friðs næstu árin.  (Með því að benda á myndirnar má stækka þær).