16. júní 2012

Jón Sigurðsson

Við 17. júní er það hæfilegt að minna á Jón Sigurðsson forseta og sjónarmið sem hann lagði til grundvallar baráttu sinni. Má vera að einhverjum þyki það ekki mjög frumlegt - en nauðsynlegt er það: baráttan fyrir betri og réttlátari heimi er eilíf.

 

Tækifærið er því notað til þess að minna á nokkur efni sem Jón forseti hélt að landsmönnum sínum og honum voru mjög hugleikin:  

 

Jón forseti beitti sér með beinum og óbeinum hætti fyrir eflingu jarðræktar Íslendinga. Um hana fjallaði Jón sérstaklega í Lítilli Varníngsbók (1861); skrifaði m.a.:

 

Fimm og sex vinnumenn og eins margar vinnukonur standa allt sumarið á höfði í þúfum og grjóti, til að heyja fyrir sex kúm, en að láta  þetta fólk taka skorpu í að bæta jörðina og gjöra hana frjósamari og auðunnari, þar um heyrist lítil fregn; og þó enginn geti neitað, að einn vinnumaður og ein vinnukona gæti fengið meira hey á hálfum mánuði, ef jörðin væri slétt og ræktuð, en tólf hjú heyja nú allt sumarið, þá er þessu enginn gaumur gefinn. Þó er þetta grundvöllurinn fyrir allri búsæld og öllum framförum á landinu.

 

Og ennfremur:

 

Auk þess sem maður ræktar til grasyrkju þannig, eða meðfram því, hefir maður kálrækt og kartöplurækt til matar og fóðurs, og þar sem engjarækt verður við komið má hafa margfaldan ávöxt við það sem nú er, með því að veita af vatnsaganum, lokræsa og veita síðan fersku vatni á, eptir að engið er þurkað upp áður og allt hið skaðlega vatn af runnið. Þessi jarðyrkjumáti er svo nytsamur og nauðsynlegur á Íslandi, að ef hann yrði almennur í hinum víðlendu mýrasveitum, þá gæti þar af leidt jafnvel breyting á loptslagi, hlýindi og hollusta, sem bætti margfalt jarðargróðann.

  

 

Og í grein sinni Um bændaskóla á Íslandi (1849) skrifaði Jón forseti m.a. að auk vísindalegrar kennslu mætti ekki vanta

 

... tilsögn og æfingu í öllum verkum, sem til búskapar heyra: piltar verða að taka þátt í allskonar vinnu, svo að þeir hafi gott verksvit; þeir, sem eru hagir, yrði að geta tekið sér fram í því; þeir þurfa að sjá verklega , hversu koma má við allskonar jarðarrækt, þekkja og kunna að beita verkfærum þeim, sem þar til heyra, þeir þurfa æfingu í að stjórna fólki og segja fyrir verkum; þeir þurfa einnig að læra að leggja niður fyrir sér alla aðferð, alla vinnu og öll fyrirtæki í búskapnum, svo hver geti ævinlega séð fjárhag sinn glögglega ...

 

 

Þessum atriðum og fleiri eru gerð skil í dálítill sýningu sem sett var upp í Landbúnaðarsafni í fyrrasumar - í tilefni afmælisárs forsetans. Sýningin verður einnig aðgengileg á þessu sumri, og er vel skoðunar virði ásamt öðru og tengdu efni sem safnið sýnir.