9. júlí 2012

Rangnefndur ljár - eða svikinn ???

Svo sem áður var lýst yfir er þetta ár tileinkað orfi og ljá í síðufræðum Landbúnaðarsafns. Ef ekki er fjallað um ljái í júlí - hvenær á það þá betur við?

 

Enn vex ljáakostur safnsins og má þakka það hugulsömum kunnáttumönnum, sem einnig hafa fært safninu aðrar sláttuminjar.

 

Fyrir fáeinum dögum kom hann Sigurjón á Glitstöðum í Norðurárdal með ljá þann í safnið sem meðfylgjandi mynd er af (hann kom reyndar með fjóra aðra ....).

 

Faðir hans hafði keypt ljáinn, víst um eða rétt upp úr 1970, en ekki notað, svo ljárinn hefur varðveist alheill.

 

En ögn er ljárinn grunsamlegur...

 

Eylandsljár var sérstök gerð ljáa sem ljáaverksmiðjan Brusletto á Geilo í Hallingdal Noregs hóf að smíða fyrir íslenskan markað á þriðja áratug síðustu aldar eftir fyrirsögn Árna G. Eylands.

 

Eylandsljár varð hugtak meðal íslenskra bænda.

 

Eylandsljáirnir voru stálsoðnir og formaðir með hömrun. 

Árni G. Eylands gaf verksmiðjunni heimild til þess að tengja ljáina sínu nafni. Þess vegna var rauður miði límdur á ljáblaðið hvar á stóð með stórum stöfum EYLANDSLJÁR.

 

Árið 1969 skrifaði Árni grein í Sunnudagsblað Tímans þar sem hann kvartaði m.a. yfir misnotkun merkis og nafns (sjá 8. árg., 28 tbl. bls 1969), og skýrði mál sitt rækilega. Mun þá áður hafa borið á lausatökum verslunarinnar hvað nafnnotkun ljáa snerti.

 

Ljárinn, sem hér fylgir mynd af, virðist að sönnu smíðaður hjá Brusletto, sjá merkið til vinstri, og hann hefur rauða miðann góða EYLANDSLJÁR, sem líklega er þá prentaður í Noregi (?) því komman yfir Áinu snýr öfugt við okkar venju.

 

Meginmálið er þó það að ljárinn sjálfur er smíðaður á allt annan veg en hinir eiginlegu Eylandsljáir: Hann er "heil-stansaður" úr einni járnplötu eins og sjá má ef myndin er stækkuð.

 

Á ekta Eylandsljá var merki Brusletto alltaf slegið í efra borð þjósins, neðarlega. Hér vantar það merki (það getur svo sem hafa tengst nýrri aðferð við ljáasmíðina)

 

Ekki vill heimsíðungur beinlínis bregða einhverjum um vörusvik. Hins vegar er næsta víst að Árni G. Eylands mundi ekki hafa samþykkt þessa meðferð á nafni sínu og vörumerki hinna fornfrægu ljáa.

 

Getur verið að seljandinn hafi með þessari merkingu vart eða óvart sett hið þekkta "vörumerki"á ljáinn, þótt annarrar smíðagerðar væri, í von um að nafnið mundi tryggja ljánum áframhaldandi velvild íslenskra kaupenda...?  Kannski voru þetta bara lausatök/athugunarleysi... hver veit?

 

Nú munum við hafa samband við ljáasérfræðing okkar í Hallingdal og sérlegan sláttusendiherra þar í Þorpi (Torpo) í von um að hann geti grafist fyrir um það hvernig standi á þessari merkingu ljásins, sem Valdimar bóndi í Hreiðri í Holtum keypti þarna um árið, en Sigurjón sonur hans jók ljáasafn okkar með.

 

En rauði miðinn til hægri, EYLANDSLJÁR, gerir hins vegar þennan ljá, og einmitt þennan, afskaplega verðmætan í ljáasafnu sem verið er að koma upp !!!

 

Athugasemdir og ábendingar í þessu ljáamáli eru sérlega vel þegnar á hvað formi sem kosið er.

 

Góðan slátt