12. júlí 2012

Verðlaun fyrir kappslátt UMSB 1918-1920

Árið 1918 gekkst Ungmennasamband Borgarfjarðar fyrir fyrsta kappslættinum hérlendis. Keppnir í starfsíþróttum höfðu þá þekkst um árabil erlendis, t.d. í plægingum.

 

Það var dr. Guðmundur Finnbogason, sá merki fræðimaður, sem lagði grunninn að kappsláttarkeppnum. Hann mótaði reglur um þær, m.a. á grundvelli eigin rannsókna á slætti og sláttumönnum. Rannsóknir hans eru einstakar á sínu sviði.

 

Þótt heimsíðungur hafi um hríð fyllst depurð yfir lánleysi Skagamanna í fótknattleik síðustu vikurnar, hefur hann annað til þess að gleðjast yfir:

 

Heimildasöfnum um kappslátt og keppnir í slætti er hluti af verki sem heimsíðungur hefur verið að bauka við undanfarin á undir vinnuheitinu Íslensk sláttusaga.

 

Hér er ekki rými til langrar fjöllunar um hana og því verður aðeins um eitt atriði rætt:

 

Í kappslætti UMBS árið 1918 og næstu árin var m.a. keppt um mjög veglega verðlaunagripi. Voru það farandgripir en unnust til eignar við endurtekna sigra sömu manna.

 

Heimsíðungur hefur haft upp á tveimur af þremur verðlaunagripanna. Þeir voru sko ekkert drasl, skal ég segja ykkur.

 

Og af því að nú er nýliðinn laugardagurinn í tólftu viku sumars, þegar menn "báru út" áður fyrr, verður brugðið upp mynd af verðlaunagripnum fyrir þriðja sæti í kappslætti UMSB.

 

Gripinn hreppti (1920) Mýramaður sem síðar fluttist til Akureyrar og ól allan sinn aldur þar við vinsældir samferðamanna sinna.

 

Afkomendur þessa manns hafa af trúmennsku geymt gripinn vandlega og nú útvegað Landbúnaðarsafni ljósmynd af honum sem hér fylgir.

 

Gripinn, sem er forkunnarfagur askur, mun Stefán Eiríksson hafa skorið: Hreint listaverk.

 

Fegurð og íburður gripsins segir nokkuð til um það hversu metin var greinin sem hann varð verðlaun fyrir. Og gætið að, þetta eru þriðju verðlaunin - Hvernig voru þá fyrstu verðlaunin?

 

Ef til vill verður sagt frá þeim síðar, þegar verðlaun fyrir annað sætið hafa komið í ljós!