16. júlí 2012

Litað af landsins gæðum

Heimsíðungur átti, já, von á því að þú mundir kíkja í tölvuna og á heimasíðu Landbúnaðarsafns þótt veðrið sé svo yfrið ágætt að rétt væri að aflýsa öllu nema útiveru og sólskinssleikjum.

 

En þótt margt sé öndvert fótknettishneigðum Skagamönnum um þessar mundir er það annað sem gleður, og þá fleira en veðrið:

 

Nú verður nefnilega sagt frá henni Guðrúnu Bjarnadóttur (hún á að vísu ætt að rekja á Skaga):

 

Guðrún sem er, og hefur um árabil verið, sérlegur móttökufulltrúi Landbúnaðarsafns þegar mikið liggur við, t.d. þegar koma stórir erlendir gestahópar er vilja kynna sér safnið og íslenskan landbúnað sérstaklega.

 

Svo sem margir hafa frétt hefur Guðrún einnig getið sér afar gott orð á sviði jurtalitunar, og er skemmst að minnast þess að hún var valin Handverksmaður ársins á Hrafnagilshátíðinni sl. sumar.

 

Guðrún hefur nú komið sér og fyrirtæki sínu, Hespuhúsinu,  fyrir að Árnesi við Andakílsárvirkjun, aðeins 4 km frá Hvanneyri. Þar tekur hún á móti gestum, kynnir list sína og handverk og býður jurtalitað band til sölu. Hafa má til þess samband við Guðrúnu um símann 865 2910 og netfangið hespa@vesturland.is

 

Guðrún hefur ekki getað annað eftirspurn, svo vinsælar eru vörur hennar.  Er fróðlegt og skemmtilegt að sjá hvernig Guðrún notar hin ýmsu grös og liljur vallarins, sem og glóandi blómstrin fríð, til litunar, bæði á grundvelli reynslu og þekkingar kynslóðanna en líka á grunni eigin þróunarvinnu.

 

Má þá vel geta þess að Guðrún veit lengra í jurtaríkinu en nef hennar nær því hún kennir einnig grasafræði við Landbúnaðarháskólann og vinnur að meistararitgerð á því sviði.

 

Með starfi sínu er Guðrún að varðveita, kynna og auka þekkingu á því hvernig nota má auðlindir landsins - í þessu tilviki grasnytjar - til verðmætasköpunar og ánægjuauka.

 

Landbúnaðarsafn vill því sérstaklega vekja athygli á starfi Guðrúnar Bjarnadóttur í Hespuhúsinu að Árnesi við Andakílsárvirkjun. 

 

Á meðfylgjandi mynd, sem Adam Benjamin tók, er Guðrún með dæmi um hið jurtalitaða band sitt.