5. ágúst 2012

Sumarkvöld - ... slitrótt glamur sláttuvélanna

Nú eru hádagar sumars, og í lífi margra er þessi helgi tími hverfandans, þótt enn lifi væntanlega margir sólríkir sumardagar. Að þessu sinni verða engar sögur sagðar um tæki, tól eða verkhætti - nema með óbeinum hætti.

 

Eitt allra besta ljóðskáld Íslendinga er hann Snorri Hjartarson - fæddur á Hvanneyri árið 1906, sonur Hjartar Snorrasonar skólastjóra og Ragnheiðar Torfadóttur frá Ólafsdal Bjarnasonar skólastjóra þar (og það minnir mig á að minna á Ólafsdalshátíðina sem haldin verður þar vestra um næstu helgi...).

 

Í tilefni þessara fallegu sumardaga er hér tekið bessaleyfi til þess að birta kvæði Snorra - Sumarkvöld - úr ljóðabók hans Á Gnitaheiði (1952).

 

Opnið gluggann vel fyrir sumarilmaninni og lesið kvæðið upphátt og þá ekki aðeins einu sinni: Eitt af mörgum listaverkum Snorra þar sem hann leikur sér með form og innihald á þann hátt sem honum einum var lagið.

 

Sumarkvöld

 

Að norðan rekur brælan úfna bólstra

og bælir þá í hlíðarrótum, lind

og polli svíður súld í fránum augum,

seftjörnin gránar, stráin drúpa þung

og fela sína máðu mynd í gljáum

margbrotnum hringum, þeldökk kónguló

kúrir á votri nöf hjá tómu neti;

niður með ánni flögrar tjaldur heim

í ljána, finnur lítinn dreng í túni

í ljósi horfins sumars ... Rökkrið þéttist

og slitrótt glamur sláttuvélanna þagnar

og slæður regnsins hverfa vöku í draum.

Áin og hjartað syngja sama lag

um sól og blóm, langan og glaðan dag.