13. ágúst 2012

Frá tímum vélsláttar með hestum

Glöggir lesendur minnast þess eflaust að síðla árs 2010 sendi Landbúnaðarsafn út spurningaskrá um hestslátt (enn er möguleiki á að nálgast spurningaskrána hér og svara henni).  Svör hafa verið að berast allt til þessa.

Úr dálitlum hluta spurningaskrárinnar, þeim sem varðar viðhorf til dráttarhestanna, hefur nú verið tekið saman nokkuð af því sem svarendur höfðu um þau að segja.

 

Svörin eru áhugaverð og sýna að dráttarhestarnir hafa átt skilning eigenda sinna og umráðamanna, hver með sínum hætti. 

 

Óskertir hlutar úr svörunum fara hér á eftir í orðréttri afritun og án viðtextaviðbóta. Númer í svigum vísa til númera svaranna í skjalaskrá safnsins um þau.

 

Það var borin umhyggja fyrir hestunum og faðir minn hirti þá vel og fóðraði (þetta var þarfasti þjónninn) þá vel ... Eg fann alltaf til með hestunum og var feginn þegar Farmall Cub tók mesta erfiðið af þeim. (19). ...þetta var hálfgert níð fyrir þá. A.m.k. var ég feginn þegar traktorinn kom 1958 og hægt var að létta þessu erfiði af þeim. (12). 

 

Langoftast sat ég á vélinni, nema í mýrlendi en þar gekk ég oftast á eftir vélinni til þess að létta sláttinn. (3). Heyrði [mann] segja að það mætti ætlast til mikils af hrossum, ef þau fengju nóg og gott fóður. (1).

 

Dráttarhestar voru alltaf í miklum metum.(10). Þetta voru eintómir öðlingar og fyrir þeim var borin töluverð virðing. (15). Það var gaman að slá með þeim og þeir nutu virðingar. (9).

 

Þó reiðhestar væru meira í metum hjá eigendum sínum en vagnhestar báru bændur afar hlýjan hug til vagnhestanna. Þeim tilfinningum lýsir enginn betur en Kristján Samsonarson frá Bugðustöðum í Dölum með eftirfarandi vísu sinni:

 

Á því gagnið greiðast sést

gang þó bragnar lái.

Þú hefur vagni vanizt mest,

vinur sagnafái. (7)

 

Á mínum bæ var það siður að klappa hestunum og þakka þeim fyrir. Það var gengið ríkt eftir því við okkur krakkana að við lærðum það. (5).  Man bara hvað þessar blessuðu skepnur voru þolinmóðar þrammandi hring eftir hring undir hotti og hói pabba. (4).

 

Og man eg þegar hólminn var orðinn mjór, fáar greiðubreiddir, urðu hestarnir gjarna viljugri. Sáu að þetta var að verða búið. (19).

 

Það var mikið talað við hestana í vinnunni ... Ég held að þeir hafi skilið þegar talað var við þá. (16). Þegar pabbi fór af stað með vélina sagði hann: Ho, ho, kallarnir, og þegar átti að beygja eða snúa sagði hann: Hliðar, kallarnir. (21).

 

Ég talaði mikið við hestana við verkið. (17). Aldrei heyrt talað um keyri eða svipu. Hljóðmerki voru engin, nema kannske veikt flaut við hvíld. (22). Ekki minnist ég þess að keyri eða svipa væru notuð en danglað í klárana með aktaumunum, ekki man ég heldur eftir að við notuðum neins konar hljóðmerki nema  bara aðeins „hott, hott, áfram nú“ o.þ.h. (20).

 

Hljóðmerki voru alltaf notuð, Bakk, Snú og blístur til að stöðva eða hægja á og Hobb eða Áfram til að hvetja og Ekki, ef hestarnir gerðu eitthvað rangt. Vanir hestar svöruðu þessum merkjum um leið og þau voru gefin og það tekur ekki langan tíma að kenna hestum að svara hljóðmerkjum ef þau eru markviss og alltaf gefin á sama hátt. Tóntegundin eða hvernig röddinni er beitt skiptir einnig miklu máli. (8).

 

Mósóttur hestur ... var svo öruggur götuhestur að þess vegna hefði verið hægt að sofna á vélinni. (7).