20. ágúst 2012

Garður er granna sættir

Að þessu sinni verður birt mynd sem heimsíðungur tók á dögunum austur í Vestur-Skaftafellssýslu. Þar hafa löngum búið hyggnir iðjumenn sem ekki kasta höndum til verka.

 

 

Kunningjar léðu fjölskyldu heimsíðungs náttstað í nýbyggðum sumarbústað. Hann stendur hið næsta íðilfögrum garði, sem á sínum tíma hefur verið hlaðinn af vandvirkni, líklega til þess að marka af land beitar og annarra nytja.

 

Í áranna rás hefur gróður breyst og breitt sig fagurlega yfir garðinn, eins og best verður lýst með myndinni 

 

Garðurinn stendur fjarska vel. Er enn meðalmanni í læri langt til. Kjarni hans er hraungrýti úr nálægum eldstöðvum, hlaðið þannig að hvergi er að sjá að veggurinn hafi raskast. Beitilyngið hefur komið sér fyrir sunnanmegin, en grasið er meira undan sólu og þar má enn sjá skýra rásina sem mest af efni í garðinn hefur verið tekið úr.

 

Urmul slíkra garða má finna bæði í þessari sýslu sem og öðrum. Þeir eru minjar um menningu og nenningu þeirra kynslóða sem þarna bjuggu á sínum tíma. 

 

Sumar minjanna láta síga undan tönn tímans. Hún eyðir mörgu, en náttúran sjálf sér um að vernda annað eins og til dæmis þennan fallega garð.

 

En svo eru mennirnir líka að störfum. Á myndinni sjáum við hilla undir trjágróður bæði villtan og vistaðan, gróður sem brátt um hylja  ýmsar minjar um horfna menningu - eins og til dæmis þennan garð; en skapa nýja.

 

Ekki varður allt varið eða verndað, og tímarnir og þarfir þeirra breytast.

 

Mestu varðar hins vegar að þekkja umhverfi sitt og umgangast það af nærfærni og virðingu, mótaðri af því viðhorfi að við erum hvorki fyrsta né síðasta kynslóðin sem lifir með þessu landi.

 

Smellið á myndina til stækkunar og njótið hins skaftfellska menningarlandslags. Kannski sjáið þið líka eitthvað af bláberjunum sem þarna í morgundögginni héngu fullþroska á greinum sínum!