29. ágúst 2012

Týndur fannst en fundinn hvarf ...

... segir í frægri vísu eftir hann Hjört skólastjóra Hjálmarsson, er var, á Flateyri. Vísan öðlaðist nokkra staðfestu á dögunum með konunni sem týndist þarna fyrir austan, meðal ánna á afrétti Skaft-tynginga, er var svo praktísk að hún tók þátt í leitinni að sér. Betur að fleiri gerðu það nú þegar hallar að haustleitum fjár og manna.

 

Vitanlega á maður ekki að hafa slíkar týningar eða findingar í flimtingum, og síst standi maður fyrir virtri heimasíðu stofnunar sem tekur sjálfa sig alvarlega og nýtur til þess stuðnings almennings. 

 

 

En því er þessi formáli skrifaður að dyggur stuðningsmaður Landbúnaðarsafns, eigandi glæsilegrar GAS-forn-jeppa-bifreiðar frá tímum Þorskastríðanna, og lesandi efnis www.landbunadarsafn.is til margra ára benti heimsíðungi á að liðka þyrfti fyrir leit lesenda í textasafni fréttasíðunnar.

 

Stuðningsmaðurinn strauk heimsíðungi meðhæris í leiðinni og kvað í þessum textum felast mikinn fróðleik og speki sem gott væri að rifja upp við ýmis tækifæri.

 

Þess vegna tók heimsíðungur leitarábendingu hollvinarins alvarlega - minnugur einnig leitarumræðunnar þarna af afrétti Skaft-tynginga...

 

Svona má leita á heimasíðu Landbúnaðarsafns:

 

Með því að fara inn á sjálfa fréttasíðuna neðst (ekki einstakar fréttir)  og finna það sem heita eldri fréttir  ...

 

Sé síðan haldið upp til vinstri, upp undir merki safnsins, má rekast á leitarstreng. Í hann má rita orð eða heiti sem leita á að. Birtast þá í runu fréttapistlar þar sem téð hugtök koma fyrir.

 

Við endurgerð heimasíðunnar, sem brátt rekur að, þegar safnið hefur orðið ríkara en það er nú, má vel vera að við leitum aðferða til þess að flokka þessa pistla betur og rökvísar.

 

Þangað til notum við þessa einföldu en ekki svo mjög tæknivæddu aðferð.

 

Gangi ykkur vel.

 

Stuðningsmanninum er þökkuð ábendingin.