14. september 2012

Húnvetnskur höfðingi í heimsókn

Það gerðist í ágúst síðastliðnum að áliðnum slætti í Miðfirði að á milli safnsins og Ingimundar Benediktssonar frá Staðarbakka samdist um að safnið tæki í hvíldarinnlögn til hótelgistingar dráttarvél hans nýuppgerða, sem er John Deere M árgerð 1949.

 

Ingimundur var þá að koma af samkomu þeirra Miðfirðinga, hvar þeir í slætti og öðrum heyskap rifjuðu upp vinnubrögð fyrri tíðar, m.a. slátt með fornvélum, þ.á.m. Jóni þessum Dýra.

 

Safnið mun sem sagt sýna gripinn næstu mánuðina. Það er sérlega ánægjulegur heiður því bæði er þessi gerð fornvéla merkileg og svo er þessi dráttarvél svo fram úr skarandi vel til höfð - Ingimundur er enda þekktur þjóðhagi; getur búið til allt nema (ef væri) lampaglös, eins og Stefán Jónsson skrifaði í frægri bók sinni.

Hér fer á eftir fróðleikur um þennan húnvetnska höfðingja, sem hefur númerið H-d 53:

 

Dráttarvélina á Ingimundur Benediktsson frá Staðarbakka í Miðfirði sem gerði hana ásamt fylgitækjunum upp, svo allt er nú sem orðið nýtt. Dráttarvélin er í hvíldarinnlögn í hér í safninu frá 12. ágúst 2012.

 

Dráttarvélin kom ný að Uppsölum í Miðfirði en var þó lengst af notuð á Hvammstanga þar sem hún hlaut góða umhirðu.

 

Það var Heildverslunin Hekla hf. sem umboð hafði fyrir bandarísku búvéla-smiðjurnar John Deere. Þar á bæ vildu menn með þessari dráttarvél keppa við Ferguson, IHC, og Ford. Af þessari gerð komu 29 vélar til Íslands, þar af 15 árið 1949.

 

Dráttarvélin prýðir ýmislegt sem um miðja síðustu öld þótti til þæginda: Hún hafði vökvalyftu, stýrishjólið var stillanlegt eftir ístru ökumanns svo og sætið sem er á sleða. Setan var á loftpúða sem hægt var að dæla í eftir þörfum og þyngd ekils. 

 

Mjög auðvelt var að komast að mótor til hirðu og viðgerða. Hins vegar var ekki jafnauðvelt fyrir ekilinn að príla upp í dráttarvélina eða úr henni. Þótt sláttuvélin sé baktengd situr ökumaður það aftarlega á vélinni að ekki er óþægilegt fyrir hann að fylgjast með slættinum.

 

Enn í dag nota John Deere-verksmiðjurnar sömu liti á dráttarvélar sínar og þær gerðu fyrir 63 árum, en það heyrir til undan-tekninga í þeim geira.

 

(myndirnar má stækka...)