17. október 2012

Lokræsaplógur (-grafa) - fyrir hesta?

Safninu bættist merkilegur gripur í byrjun þessa mánaðar.

 

Grundarbræður í Reykhólasveit, Unnsteinn og Guðmundur höfðu verið að taka til handargagns verkfæri, sem um árabil höfðu legið þar á holti í landi Tilraunarstöðvarinnar er lengi var rekin á Reykhólum.

 

Verkfærið kom þeim spánskt fyrir sjónir en eftir greiningu ljósmynda, sem þeir sendu, kom í ljós að þarna var á ferðinni lokræsaplógur – eiginlega lokræsagrafa – ákaflega lík norska Engens-hesta-lokræsaplógnum, sem reyndur var árið 1928 og Árni G. Eylands skrifar um í bók sinni, Búvélar og ræktun, á bls. 82, 65. mynd.

 

Ekki verður annað séð en plógurinn hafi verið dreginn af hestum – þótt vel hafi mátt hengja hann aftan í dráttarvél. Skeri ristir upp úr botni plógfarsins. Frá skeranum ber færiband moldina upp úr skurðinum; færibandið er knúið áfram af gaddahjóli sem gengur í skurðbotninum (sjá myndina).

 

Þeir Grundar-bræður buðu safninu gripinn og var það þegar þegið. Þangað er nú gripurinn kominn og er búið að gera honum ögn til góða með varðveislu í huga.  Plógurinn er furðu heill. Timburskaft ofan á honum er meira að segja mjög heillegt, jafnvel svo að á því sjáist enn gulleit málning.

 

Ekkert merki er á plógnum en á timburskafti hans virðist standa 46 1. Breidd skerans, er mótar, ræsið, er 18 cm (sama og Engens-plógnum). Jóhannesi vélameistara safnsins veittist auðvelt að losa um alla (hreyfanlega) hluta plógsins, sem mynda stillingu á plægingardýptinni, gerð með hefðbundinni handstillistöng á skarðakvarða.

 

Þrátt fyrir eftirgrennslan hefur ekki enn fundist neitt um sögu þessa plógs. Útlit hans vekur grun um að hann sé vart mikið eldri en frá 1950. Hans virðist hvergi getið í skýrslum, þótt fráleitt höfum við leitað af okkur allan grun. 

 

Helst hefur hvarflað að kunnugum að plógurinn hafi etv. þjónað Landnámi ríkisins sem um tíma hafði nokkur umsvif á Reykhólum í tengslum við nýbýlalönd þar, útmælingu þeirra og ræktun.

 

Ef einhver er aflögufær um fróðleik varðandi plóginn – lokræsagröfuna – þiggjum við hann gjarnan. Plógurinn er hin mesta safnprýði og er góður fulltrúi verklausna er menn voru að þreifa sig áfram með áður en skurðgrafa með dragskóflu leysti mýrar úr álögum eða „hófu hernaðinn gegn þeim“ árið 1942.

 

Grundarbræður fá sérstakar þakkir fyrir að hafa bjargað plógnum frá glötun!