21. október 2012

Búhnykkur búnaðarsögurannsóknum

Þau tíðindi bárust á dögunum að bifreið hefði komið norðan úr landi hlaðin skjalasafni Sambands íslenskra samvinnufélaga (SÍS). Safnið hefur verið afhent Þjóðskjalasafni Íslands (www.archives.is ) mun þar fá hina vönduðustu hirðu, sjá t.d. http://www.ruv.is/frett/margir-vilja-skoda-skjalasafn-sis

 

Þetta eru góðar fréttir, bæði vegna þess sóma sem merka safni er með þessu sýndur, og ekki síður vegna þeirrar þýðingar sem breytnin hefur fyrir t.d. rannsóknir á búnaðarsögu 20. aldar.

 

Rannsóknir á búnaðarsögu 20. aldar eru enn afar hóflegar að magni, að minnsta kosti í samanburði við rannsóknir á búnaðarsögu fyrri alda. Urðu þó meiri breytingar á landbúnaði á 20. öld en öllum hinum öldum Íslandsbyggðar til samans.

 

Samband  íslenskra samvinnufélaga kom með afar fjölbreyttum hætti að nýsköpun landbúnaðar - bæði afurðasölu og verslun með mikilvæg aðföng.

 

SÍS annaðist t.d. að langmestu leyti verkfæraútvegun fyrir bændur á árunum 1927-1945, og var ráðandi á þeim markaði langt fram undir aldarlokin.

 

Þó ekki sé litið til annars en verkfæra, sem breytingar sveitanna birtust hvað skýrast í, hefur skjalasafn SÍS án efa að geyma afar merkileg gögn um þróun og breytingar á búnaðarháttum og búverkum.

 

Ýmis verslunarskjöl Véladeildar SÍS eru því áreiðanlega hinar bestu heimildir, t.d. um útbreiðslu hinna ýmsu verkhátta, svo sem heyskaparhátta, mjaltatækni, að ekki sé nú minnst á dráttarvélavæðinguna allt frá komu fyrstu IHC 10-20 vélanna til Íslands.

 

Ætla má að í skjalasafni SíS séu líka gögn frá Dráttarvélum hf sem varpað geta skýrara ljósi á Ferguson-öldina, en hún er mörgum hugleikin sem kunnugt er...

 

Ástæða er til þess að gleðjast yfir þessari ráðstöfun SÍS og Þjóðskjalasafns Íslands. Vonandi tekst safninu að búa SÍS-skjölunum verðugan sess með öðrum þjóðskjölum, ekki aðeins til geymslu, heldur fremur mönnum til rannsókna á einum merkasta kafla í sögu þjóðarinnar.