28. október 2012

Íslensk jeppasláttuvél frá miðri síðustu öld?

 

Í Landbúnaðarsafni er varðveitt jeppasláttuvél sem grunur leikur á að sé íslensk að smíði. Sláttuvélina á Guðmundur Kjartansson, snæfellskur forntækjaáhugamaður m.m. sem starfað hefur í Reykjavík. 

 

Guðmund grunar að sláttuvélin hafi verið smíðuð í Vélsmiðjunni Keili í Reykjavík. Þann grun styðja fleiri heimildarmenn. Sé svo er um merkilegan grip að ræða – jafnvel einu vélknúnu sláttuvélina sem smíðuð hefur verið hér á landi!?!

 

 

Heimsíðungur hefur rannsakað sláttuvélina all gaumgæfilega og skal nú greint frá helstu niðurstöðum:

 

·         Greiða sláttuvélarinnar er að sjálfsögðu „öfug“, þ.e. hún gengur til vinstri út frá aflgjafanum – jeppanum 

·         Greiða sláttuvélarinnar hefur vinnslubreiddina 152 cm (um 5 fet)·         Á bakhlið greiðufingranna er stimpillinn MA 2619 steyptur í málminn

·         Á milli greiðufingra eru 3,8-4,1 cm, ögn breytileg

·         Greiðufingur eru frá IHC, önnur merki sjást ekki á einstökum hlutum sláttuvélarinnar.

·         Greiðufingur og ljáblöð eru tennt

·         Ytri og innri skór greiðunnar eru úr smíðajárni; á öllum öðrum vélum sem heimsíðungur þekkir til eru þeir steyptir

·         Öll smíði vélarinnar, svo sem málmskurður og –suða, er fremur gróf og ber ekki keim fjöldaframleiðslu

·         Á kasthjóli vélarinnar, sem hlaupastelpan tengist við, standa stafirnir 433-7-1949, steyptir í hjólið...

·         Ekki er að sjá að sláttuvélin sé mjög slitin. Var hún ef til vill aldrei notuð?

 

Heimsíðungur leggur með myndir sem gefa lesendum hugmynd um gripinn, einkum greiðuna og ljáinn.

 

Kemur nú að útafleggingunni:

 

Heimsíðungi sýnist flest styðja þá kenningu að sláttuvélin sé innlend smíði, að minnsta kosti „módelsmíði“ en ekki raðsmíði.

 

Heimsíðung grunar að hlutar úr öðrum sláttuvélum (erlendum) hafi að e-u marki verið notaðir við smíðina, að minnsta kosti fingur og ljábakki með blöðum, hlaupastelpufestingar ofl.

 

Stimpillinn 433-7-1949 vekur grun um framleiðsludag sveifluhjólsins, etv. sumarið 1949 ???. Sé svo er það nokkrum árum ÁÐUR en Busatis bauð jeppasláttuvélar á íslenskum markaði (vorið 1953)! Flökkusaga lifir um það að hinar þýsku verksmiðjur hafi haft þessa íslensku smíði að fyrirmynd …

 

Nú þurfum við sem sagt að bregða upp tvíderungi, pípu og stækkunargleri að hætti Sjérlokks Hólms og leita sannleikans í málinu.

 

Veit einhver eitthvað um þetta merkilega mál?