7. nóvember 2012

Fyrirlestur um söfnun örnefna

Í gærkvöld, 6. nóv. hélt Ragnhildur Helga Jónsdóttir fyrirlestur í Snorrastofu í Reykholti um söfnun örnefna í Borgarfirði.  Að fyrirlestrinum stóðu Snorrastofa, Landbúnaðarsafn Íslands og Félag aldraðra í Borgarfjarðardölum.  

 

Ragnhildur Helga er umhverfislandfræðingur að mennt, með meistarapróf frá Háskóla Íslands. Hún starfar sem  sérfræðingur í sögu landnýtingar á Íslandi auk þess að vera bóndi í Ausu í Andakíl.

 

 

Á síðustu 20 árum hefur verið unnið einstakt verk að skráningu og kortlagningu örnefna í Borgarfirði, bæði á vegum Félags aldraðra í Borgarfjarðardölum og sem BS-verkefni í landfræði við Háskóla Íslands. Reynslan hefur sýnt að það er hver að verða síðastur að ná til heimildarmanna sem þekkja örnefnin og staðsetningu þeirra.

 

Undanfarin misseri hefur verið unnið að skráningu örnefnanna í örnefnasjá Landmælinga Íslands. Það er besta leiðin til að varðveita og miðla þeim mikilvægu heimildum sem felast í örnefnum.

 

Þessi skráning gefur möguleika á margskonar rannsókna- og þróunarverkefnum næstu árin, hvort sem þau tengist leiðsögn í gegnum snjallsíma, uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu, miðlun þjóðsagna, rannsókn á atvinnuháttum o.s.frv.

 

Í fyrirlestrinum sagði Ragnhildur Helga frá verkefnum sem þarna hafa verið unnin, þeim árangri sem náðst hefur og framtíðarsýn. 

 

Meðal annars vék Ragnhildur Helga að þeim mörgu landnýtingartengdu örnefnum sem finna má og eru verðmæt heimild um atvinnuhætti fyrri tíma, ekki síst landbúnaðar.

 

Fundurinn var fjölsóttur þrátt fyrir óskemmtilega færð í uppsveitum héraðsins.

 

Meðf. mynd er dæmi úr örnefnasjánni - loftmynd sem borgfirsk örnefni hafa verið færð inn á. Myndina má stækka með bendlinum...