11. nóvember 2012

Hann Ólafur Stephensen

Í dag eru liðin 200 ár frá andláti Ólafs Stephensen  stiftamtmanns.

 

Merkilegur maður Ólafur. Um hann má m.a. lesa á síðunni http://is.wikipedia.org/wiki/%C3%93lafur_Stephensen

 

Hér er á Ólaf minnt vegna búfræðirita hans og merkilegra tilrauna til  nýsköpunar í atvinnulífi, m.a. iðnrekstur.  

 

 

Ólafur ritaði stórmerkilegar greinar um ýmsar greinar landbúnaðar, og við grípum niður í grein í blaðinu Ísafold 3. apríl 1879, þar sem um hann er fjallað. Þar er m.a. haft orð á

 

„þeim snilldarlegu ritgjörðum, sem eptir hann liggja í ritum fjelagsins [Lærdóms-listafélagsins]:

 

1. Um æðarvarp (1784).

2. Um gagnsmuni af sauðfje (1785).

3. Um not af nautpeningi (1786).

4. Um sjávarafla.

5. Um jafnvægi bjargræðisveganna (1787) og

6. Um hesta (1788).

 

Ritgjörðin um jafnvægi bjargræðisveganna er máske merkilegust af þeim öllum, af því hún hefir svo að segja inni að halda þess manns búskapar-trúarjátning, sem öðrum fremur var öllum bjargræðisvegum landsins gagnkunnugur, og hafði eins lagt sjávarafla eins og landbúnað á gjörva hönd. Sýnir hann þar fram á, að hnignun velmegunar landsins, er ekki svo mjög umbyltingum náttúrunnar að kenna, sem þeirri meginreglu, setn verzlun vor hefir fylgt, hvort hún hefir verið einokunar eða fríhöndlun, að hafa fiskiveiðar í fyrirrúmi fyrir landbjörginni, og „uppörva þær með öllum upphugsanlegum meðulum henni til afdráttar".“

 

Í ritgerðum þessum kynnti Ólafur landsmönnum sínum  ýmis atriði sem þá töldust hagnýt vísindi meðal nágrannaþjóða sem lengra voru komnar, svo sem um fóður og fóðrun búfjár, og kynbætur þess og hirðingu.

 

Sumt af þessum fræðum á jafnvel við enn þann dag í dag. 

Kíkið til dæmis á meðfylgjandi síðu (bendlið á hana til stækkunar).

 

Af lestri fyrstu setninga 24. greinarinnar má sjá að það er fátt nýtt undir sólinni.

 

Sannfærast má um það enn frekar með lestri annarra búnaðargreina Ólafs, sem finna má í Riti þess konunglega íslenzka Lærdómslistafélags á www.timarit.is

 

Ólaf Stephensen stiftamtmann má klárlega kalla einn fyrsta búnaðarkennara og landsráðunaut íslenskra bænda.