16. nóvember 2012

Í tilefni Dags íslenskrar tungu

Á þessum vettvangi er haldið er upp á Dag íslenskrar tungu með því að birta eitt af bestu kvæðum Snorra Hjartarsonar. Raunar er þar vandi úr að velja svo mörg ágæt kvæði sem Snorri lét okkur eftir. Ekki að ástæðulausu sem ýmsir telja hann meðal bestu skálda sem kveðið hafa á íslensku.

 

Og til þess að valda tæknisöguáhugamönnum ekki vonbrigðum skal það nefnt, af því að Snorri kveður þarna m.a. um "slitrótt glamur sláttuvélanna", að glamur sláttuvéla mun einmitt fyrst hafa heyrst hérlendis á engjum Hvanneyrar sumarið 1895 og þá m.a. fyrir tilstilli föður skáldsins, skólastjórans Hjartar Snorrasonar. Snorri var fæddur á Hvanneyri árið 1906.

 

Stemning sumarkvöldsins, er Snorri kveður um, og þar með sláttuvélarglamrið, var því nokkuð sem hann var vaxinn upp með frá blautu barnsbeini - það var sennilega samgróið æskuminningum hans.

 

Njótum kvæðisins með því að lesa það upphátt, hver fyrir sig, en munið að virða greinarmerkin, og við skynjum hin meistaralegu tök skáldsins á máli og stíl. Þau voru aðalsmerki Snorra Hjartarsonar:

 

Sumarkvöld

 

Að norðan rekur brælan úfna bólstra

og bælir þá í hlíðarrótum, lind

og polli svíður súld í fránum augum,

seftjörnin gránar, stráin drúpa þung

og fela sína máðu mynd í gljáum

margbrotnum hringum, þeldökk kónguló

kúrir á votri nöf hjá tómu neti;

niður með ánni flögrar tjaldur heim

í ljána, finnur lítinn dreng í túni

í ljósi horfins sumars ... Rökkrið þéttist

og slitrótt glamur sláttuvélanna þagnar

og slæður regnsins hverfa vöku í draum.

Áin og hjartað syngja sama lag

um sól og blóm, langan og glaðan dag.

 

                        (Snorri Hjartarson – Á Gnitaheiði 1952)