6. desember 2012

Íslendingar læra á búvélar hjá Ameríkönum

Síðla árs 1956 hélt fjórtán manna hópur ungra Íslendinga vestur um haf til þess að taka þátt í námskeiði um viðhald og meðferð landbúnaðarvéla. Hópurinn ferðaðist þvert um Bandaríkin – stranda á milli – og gerði víða stans. Þátttakendur komu víða að af landinu. Þeir áttu það sameiginlegt að hafa unnið með landbúnaðarvélar – ýmist vinnuvélar eins og skurðgröfur og jarðýtur ellegar heimilisdráttarvélar.

 

Einn í þessum hópi var Jóhannes Gestsson frá Giljum í Hálsasveit 

 

Að beiðni heimsíðungs skrifaði Jóhannes ferðsöguna eins og hún kom honum fyrir sjónir. Jóhannes hafði haldið dagbók um viðburði ferðarinnar og auk þess af hirðusemi sinni haldið til haga ljósmyndum, póstkortum og fleiri gögnum sem til féllu á reisu þeirra félaga.

 

Ferðasaga Jóhannesar er hin fróðlegasta. Í henni kemur fram að þó nokkur hersla hafi verið lögð á vélahirðu og –meðferð bar margt annað fyrir augu gestanna og varð þeim minnisstætt.  Hér er t.d. gripið niður í frásögn Jóhannesar af heimsókn hópsins til Chicago:

 

„Annars vorum við á daginn mest hjá International Harvester; þaðan sem meiri hluti dráttarvéla á Íslandi var á þessum tíma. Við sáum, hvernig framleiðsla þeirra fór fram og komum á verkstæði þar sem dráttarvélar eru settar saman. Einnig voru sýndar kvikmyndir um það, og fyrirlestrar um viðgerðir og viðhald búvéla. Margir í hópnum höfðu unnið við þetta, og vissu flest sem þar var sýnt, aðrir minna, og sumir, t.d. ég, ekkert. Við bjuggum á hóteli frá kristilegu félagi ungra manna, í 19 hæða húsi. Þar var mjög ódýrt að vera. Einn daginn voru tónleikar. Ung kona, Nancy Boyle, spilaði á píanó létt klassískt tónverk, sem ég hlustaði á, mér til ánægju. Ég skoðaði mig nokkuð um í borginni. Kom í götu, State street að nafni, leist ekki á, og fór þaðan. Gatan var eitthvað skuggaleg, að mér fannst.“

 

Með kafla þessum fylgir mynd sem tekin var í ferðinni (bendlið hér).

 

Þarna eru þeir ferðafélagarnir Jóhannes Gestsson (t.v.) og Björn Benediktsson frá Sandfellshaga í Öxarfirði (t.h.) að kynna sér Diagnosis Equipment  –Generator & Regulator Tester  af gerðinni SUN. Það mun vera heimamaður  sem þarna kynnir tækið. Það hefur án efa þótt stórmerkilegt á þessari tíð og ólíklega verið til á íslensku búvélaverkstæði.

 

Stórt er tækið: Eins og meðal skatthol. Í dag er tæki sem þetta á stærð við litla fartölvu og þaðan af minni, fáanlegt á eBay, og mælir örugglega margt fleira en hinn stóri lírukassi sem þeir félagarnir virða þarna fyrir sér.

 

Síðar átti Björn í Sandfellshaga eftir að glíma upp á eigin spýtur við flóknari rafbúnað en var í þessum kassa. Til dæmis þegar hann smíðaði vatnvirkjun sína um síðustu aldamót, með stjórnbúnaði og öllu heila, herma frásagnir ...

 

Ef til vill birtum við frásögn Jóhannesar einn daginn hér á heimasíðunni eða á öðrum viðeigandi vettvangi.

 

Frásögn Jóhannesar er góð heimild um einn bernskukafla vélvæðingar hérlendis og ekki síður um ferðalög til útlanda sem þá voru ekki daglegt brauð. Heimsíðungi reiknast til að bara flugmiðinn hafi kostað andvirði 16 meðaldilka eða tæpa hálfa meðalnyt meðalkýr á þeim dögum ...

 

Jóhannes lýkur enda frásögn sinni þannig: „Þessi ferð, sem ég hefi hér lýst, er held ég mesta ævintýri, sem ég hef upplifað á minni ævi, sem orðin er löng, en ekki viðburðamikil.“