11. desember 2012

„Første eksport av høy-kanoner“

Þannig hljóðaði forsíðufyrirsögn norska blaðsins Rogaland mánudaginn 4. júní 1956. Danakóngur var þá nýlega búinn að heimsækja Íslands með sinni drottningu og stutt var í Alþingiskosningar er komu Hermanni, Lúðvík og Gylfa til valda. 

 

Heimsíðungur rakst á afrifu úr Rogalands-blaðinu í gögnum Árna G. Eylands er safninu bárust fyrir nokkrum árum. Er það enn eitt dæmið um þær mörgu heimildir um búnaðarsögu Íslendinga á síðustu öld sem finna má í miklu safni bréfa, bóka, mynda og skjala er Árni lét eftir sig.

 

Heyblásarar urðu gríðarlega vinsæl verkfæri hérlendis. Eiginlega urðu þeir áberandi einkenni hirðingartækninnar hvað laust hey snerti um aldar-þriðjungs skeið (1960-1990), allt fram að komu rúllutækninnar.

 

 

Hér á síðunni hafa áður orðið sögur um nafn tækisins – heyblásari – heybyssa – Gnýblásari – Rokblásari. Hér snýst sagan um Gnýblásarann en svo var hinn norski heyblásari nefndur strax samsumars í kynningu hérlendis. Hann átti eftir að seljast í hundraðavís úr skála Árna Gestssonar í Glóbus, er hafði söluumboðið.

 

En aftur að fréttinni í Rogalands-blaðinu. Hún var orðuð þannig (hér í íslenskri þýðingu heimsíðungs – Mynd fréttarinnar fylgir með):

 

„Eins og „Rogaland“ áður var greint frá hefur Trygve Kverneland selt 60 heybyssur til Íslands. Þetta eru fyrstu verkfæri þessarar gerðar sem flutt eru út, og það eru viðskipti er komust á að tilhlutan Eylands deildarstjóra sem gafst færi á að kynna sér heybyssuna í heimsókn sinni til Rogalands í fyrrasumar. Á laugardaginn var fyrstu útflutningssendingu heybyssanna hlaðið á járnbrautarvagna á Bryne. Frá Bryne lá leið þeirra til Kristjánssands þar sem þeim skyldi komið í skip til Íslands.“

 

Sennilega rataði einn þessara fyrstu blásara um síðir í Landbúnaðarsafnið fyrir tilstilli ágæts bónda í Rangárvallasýslu.  Málið er þó ekki fullrannsakað.

 

Trygve Kverneland – eða Kvernelandssmiðjan víðfræga  – átti eftir að hafa meiri áhirf á heyskaparhætti íslenskra bænda. Ef til vill segjum við frá því á nýju ári.