27. desember 2012

Í „romjula“ – Hrós til Húsafriðunarnefndar

 ... afsakið sérkennilegan fyrri hluta titils pistilsins. Hann er sóttur til Noregs. Þar er tíminn á milli jóla og nýárs er gjarnan nefndur svo. Af einhverjum ástæðum hefur hann ekki fengið hliðstætt heiti á íslensku eða hvað? (Rúmhelgi? Rúmjól?)

 

Í „romjula“ gerðu menn og gera sér sitthvað til afþreyingar og skemmtunar. Til dæmis að skrifa þetta:

 

Það er siður fjölmargra stofnana og einstaklinga að senda rafrænar jólakveðjur. Svo var einnig fyrir þessar hátíðir. Margar þeirra voru afskaplega fallegar.

 

Heimsíðungi þótti ein þó bera af. Sú kveðja hefur því hlotið fyrsta sæti í óopinberri keppni Landbúnaðarsafns um fallegustu raf-jólakveðjuna móttekna árið 2012.

 

Kveðjan er frá Húsafriðunarnefnd. Raunar sú hinsta þaðan því nefndin mun sameinast Minjastofnun Íslands um næstu áramót.

 

Óþarfi er að fara mörgum orðum um heildargerð kveðjunnar, svo ágæt sem hún er. Heimsíðungur vill sérstaklega draga athygli lesenda að ljósmyndinni sem prýðir kveðjuna. Á henni stendur: Hjaltastaða(r)kirkja  Ljósm. Kristjana Agnarsdóttir.

 

Við sjáum í forgrunni myndarinnar fornan dreifara fyrir tilbúinn áburð. Í gegnum hjól hans glittir í kirkjuna á Hjaltastað í Hjaltastaðarþinghá. Kirkjan var vígð 1881 en hefur sýnilega verið endurgerð fagurlega.

 

Dreifarinn gæti hins vegar verið frá miðri síðustu öld, smíðaður hjá International Harvester Co í Norrköping í Svíþjóð. Oft kallaður Deering. Byggður á hugmynd norsks manns er hét Kjølstad. (Um gripinn má lesa í bók heimsíðungs um Farmal og hans slekti allt – Alltaf er Farmall fremstur, bls. 52-53). SÍS flutti dreifarann inn og seldi í miklum fjölda.

 

Deering-dreifarinn varð mjög vinsæll hérlendis enda traust og vandað verkfæri. Dreifði öllum áburði vel nema Kjarna, hinum sérstæða íslenska köfnunarefnisáburði. Við hann réði varla nokkur dreifari svo vel væri, lengi vel. Deering-dreifarinn fór í flestar sveitir landsins. Sýnilega einnig austur á Hjaltastað.

 

Þar hefur þessi IHC-Deering-áburðardreifari veðrast fyrir kirkjudyrum. Um linsu ljósmyndarans lítum við litlu kirkjuna bera við burðarhjól dreifarans. Hjólið minnir á útgeislun miðheims og eilífðina, rétt eins og kirkjan, sem snertir pílárakrans hjólsins. Í hvítum snjónum njóta náttúrulitir dreifarans, vegghleðslunnar og kirkjunnar sjálfrar sín sérlega vel í notalegri samhverfu.

 

En svo er það boðskapur myndarinnar: Hvað eiga guðshúsið á Hjaltastað og Deering-áburðardreifarinn forni sameiginlegt?

Jú, hver man ekki dæmisögu Jesúsar um sáðmanninn sem gekk út að sá (Lúkas 8. 4-15)? Kíkið bara á prýðilega útafleggingu hr. biskups Karls Sigurbjörnssonar um viðfangsefnið, sjá http://tru.is/postilla/2004/02/sadmadur-gekk-ut-ad-sa

 

A. Til guðshússins á Hjaltastað hafa sóknarbörn sótt bæði sáð og næringu andans í áranna rás. Vissulega kann eitthvað af sáðinu að hafa hafnað í grýttri jörð, eins og gengur, og sumt af næringunni fallið á jurtir er ekki svöruðu henni ellegar bara á beran svörðinn þar sem engin jurt gat við henni tekið...

 

B. Eins var það með Deering-áburðardreifarann lúna. Hann dreifði sáði og næringu Hjaltastaðarbónda á túnið. Sumt féll á grýtta jörð eða lítt frjóa (heimsíðungur þekkir að vísu ekki til jarðvegsskilyrða þar eystra). Eitthvað kann að hafa lent þar sem engin jurt gat við næringunni tekið eða spírunarskilyrði voru knöpp, jafnvel engin, eins og gengur.

 

Svona er nú stundum stutt á milli hins eilífa boðskapar og hversdagsamsturs daganna. Það sýnir myndin ágæta á jólakveðju Húsafriðunarnefndar svo makalaust vel.

 

Hjaltastaðarkirkja er friðuð, tel ég víst, til þess að halda til haga dæmum um  fornt handverk við gerð og smíði guðshúsa. Líka af því að kirkjan sjálf geymir sögu kynslóða í lítilli sveit – sögu sem er brot af menningarsögu þjóðarinnar.

 

Í Landbúnaðarsafn er forkunnargott eintak af Deering-áburðardreifara frá International Harvester Co. Áburðardreifarinn þjónaði kynslóð norðdælskra góðbænda um skeið. Saga þeirra er brot af íslenskri búskaparsögu – Dreifarinn er minjar um ræktun efnisins rétt eins og Hjaltastaðarkirkja telst til merkra minja um ræktun andans í kristilegum kærleik.

 

Húsafriðunarnefnd er handhafi Hróss Landbúnaðarsafns Íslands fyrir bestu raf-jóla- og -nýárskveðjuna árið 2012.