4. janúar 2013

100 ár frá fyrstu sæðingunni á Íslandi

 

Nýtt ár er gengið í garð. 2013. Þökkuð eru góð og gagnleg samskipti á síðasta ári og við vonum að nýja árið verði farsælt og ríkt af þörfum verkefnum.

 

Það er venja margra að leita afmælistilefna. Ágætur siður það og til þess fallinn að minna á framvindu tímanna: Hvernig viðhorf, þekking og reynsla breytast og verða til, hverfa líka.

 

Umfram allt getur það orðið til þess að við skiljum framvinduna betur – og þá um leið stöðu okkar og stefnu í óræðu rými tímans.

 

 

Jafnvel þótt augnablikið sé nú það eina, sem við eigum, er það hluti af „herskara tímanna safni“ eins og segir í þekktu ljóði.    

 

Og eftir þennan hátíðlega inngang er rétt að minna á aldarafmæli merkilegrar starfsemi á sviði íslensks landbúnaðar.

 

Í nýliðnum mánuði var sæði úr völdum hrútum dreift víða um land og afburðaær sæddar með því. Þessu starfi má meðal annars þakka þær undraverðu framfarir sem orðið hafa í sauðfjárrækt landsmanna á síðustu árum. Fallþungi dilka hefur aukist og kjötgæði batnað til mikilla muna. Þess síðara hafa landsmenn notið í kjötfylltum jólasteikum og jólahangikjöti undanfarna daga.

 

En áasæðingar eru ekki nýjar úr nálinni. [Heimsíðungur kýsa af sérvisku sinni að tala um áasæðingar, sbr. kúasæðingar; það eru ærnar sem eru sæddar en hrútarnir (sem hluti sauðfjárins)  koma hvergi nærri nema sem lifandi brunnar hins líkamlega og verðmæta seims – það er þeim nóg].

 

Guðmundur Gíslason læknir, síðar kenndur við Keldur (www.keldur.hi.is ), skrifaði afar merkilega grein um sæðingu húsdýra sumarið 1944. Birtist hún í 58. árgangi Búnaðarrits, bls. 84-119, sjá www.timarit.is  

 

Rekur Guðmundur þar heims- og Íslandssögu sæðinga og fjallar meðal annars um það hvernig sæðingar gætu orðið að gagni við þá tvísýnu baráttu er bændur  háðu þá við mæðiveiki í sauðfé.  

 

Áhugasamir eru eindregið hvattir til þess að lesa hina efnisríku grein Guðmundar læknis.

 

Hér verður hins vegar aðeins tekið upp það sem Guðmundur skrifaði um upphaf sæðinga hérlendis (ljósmyndin er tekin ófrjálsri hendi af vef Sauðfjárseturs á Ströndum, www.strandir.is ):

 

Halldór Vilhjálmsson, skólastjóri á Hvanneyri, lét framkvæma fyrstu tilraun til sæðingar hér á landi veturinn 1913. Hann hafði fengið kynbótahrút frá Stóru-Völlum í Bárðardal, en hrúturinn lamaðist og gat ekki gagnazt ánum. Það tókst að ná sæði frá hrútnum og dæla því í 3 ær með þeim árangri, að ein þeirra hafnaðist, en 2 gengu upp. Má þetta teljast ágætur árangur, þar sem engin sérstök áhöld voru fyrir hendi við frjótökuna og frjódælingin framkvæmd með venjulegri bólusetningardælu.

 

Þess vegna er í ár, 2013, fagnað aldarafmæli sæðinga hér á landi, þeirrar tækni sem segja má að nú sé undirstaða kynbótastarfs í flestum greinum búfjárræktar.

 

Af minna tilefni hefur verið hellt upp á gott afmæliskaffi.