22. janúar 2013

Vélvædd ræktun og 90 ára lagabálkur

Ár 1923, þann 20. júní voru jarðræktarlög samþykkt á Alþingi. Í búnaðarsögu 20. aldar er setning  lagabálksins jafnan talin meðal áhrifaríkustu ákvarðana stjórnvalda.  Komið var nýrri skipan á ræktun í sveitum, meðal annars með hliðsjón af nýrri tækni sem til sögunnar var að mæta.

 

Hér verður ekki fjallað um lagabálkinn, enda má um hann lesa víða í netheimum, t.d. undir leitarorðunum jarðræktarlög, ræktun, Alþingi, sem og í dagblöðum þess tíma á www.timarit.is

 

 

Jarðræktarlögin 1923 ýttu undir ræktun og aðrar umbætur í sveitum. Framleiðni vinnuafls óx, ekki síst í kjölfar túnasléttunar og engjaræktar er skapaði grundvöll fyrir notkun sláttuvéla og annarra vinnusparandi heyvinnuvéla. Ríkið studdu framkvæmdirnar. 

 

Gerðir í kjölfar jarðræktarlaganna urðu, er frá leið, vissulega ekki óumdeildar fremur en önnur mannanna verk sem dæmd eru með kvarða frá öðrum tíma en verkin voru unnin á.

 

Nýmæli jarðræktarlaganna frá 1923 var meðal annars að heimilt var að veita opinberu fé til þess að „starfrækja og gera tilraunir með jarðyrkjuvélar sem sem þúfnabana, skurðgröfur og aðrar stærri nýtískuvélar, sem eru við hæfi hér á landi.“

 

Þarna var þúfnabaninn að hefja sitt þriðja ár sem ræktunarvél hérlendis og fyrsta reynsla var að komast á notkun grafvéla – skurðgrafna (sjá mynd). Og fyrstu vélgröfnu vatnsvegir Skeiðaáveitunnar tóku að mótast.

 

Þúfnabaninn sýndi mönnum að hægt var að nota vélaraflið við ræktun landsins rétt eins og vélaraflið hafði gerbreytt sjávarútvegi og sjósókn landsmanna.

 

Með vatnsmiðlun um Skeið og Flóa var grundvöllur lagður að öflugri byggð í gósenlöndunum þar og í kjölfarið varð til samvinnufélagsskapur um mjólkurvinnslu sem í dag er burðarás blómlegs mjólkuriðnaðar.

 

Vel má því minna á að í ár verða 90 ár liðn frá því að hin áhrifamiklu lög voru sett.

 

Vissulega var stuðningur ríkisvaldsins við ræktunarframkvæmdir ekki nýr af nálinni. Áður höfðu þær verið reiknaðar til dagsverka, enda mannsaflið löngum það eina sem knúið gat túnaslétturn og engjabætur. Hestar voru að sönnu komnir til sögu með nýmóðins jarðyrkjuverkfærum, flestum erlendum.

 

En jarðræktarlögin 1923 má kalla nokkur tímamót því að með þeim var fallist á að verja nokkrum hluta opinbers stuðningsfjár til þess að greiða fyrir útvegun og komu vélaafls til ræktunar.

 

Með vélunum hófst ræktunarbylgjan hærra en áður. Menn náðu markmiðum sínum og í sumum tilvikum gott betur. Jafnvel svo að unnin voru verk sem tímarnir sýndu að ekki var þörf fyrir. Þau voru þó undantekning samanborið við hin gagnlegu stórvirki vélvæddrar ræktunar á tuttugustu öld. Rætur hennar liggja að miklum hluta í lagabálki sem fagnar 90 ára sögu á komandi sumri.