1. febrúar 2013

Heybyssa á Mercury 1949

Heimsíðungur hefur verið að tína saman sögur og fróðleik um einhver merkilegustu heyskapartæki 20. aldar: heykvíslina svo og heyblásarann, sem í sumum sóknum var kallaður heybyssa, eins og fjallað hefur verið um fyrr hér á heimasíðu safnsins.

 

Rifjast hefur upp að allnokkuð var smíðað hér innanlands af heyblásurum. Bæði var þar um raðsmíði blásara að ræða en líka módelsmíði, þ.e. að hagleiksmenn ráku saman einn og einn blásara sér til sparnaðar, þæginda og skemmtunar. 

 

Meðal annars hafa þeir fróðu Grundarbræður í Reykhólasveit sagt mér af blásurum sem smíðaðir voru þar í sveitum. Dæmi um þá eiga þeir í safni sínu.

 

Norður í Kaldakinn var hagleiksmaðurinn Jón Sigurgeirsson í Árteigi. Hann smíðaði allmarga blásara. Þar nyrðra voru þeir kallaðir heybyssur, sem raunar var hin rétta þýðing á frumnefni hinna norsku blásara er hér unnu lönd á sjötta áratug síðustu aldar. Þeir hétu á máli þarlendra höykanon.

 

Maður heitir Ólafur Sigurðsson og er frá Búvöllum í Aðaldal. Margsinnis hefur hann sent safninu ýmsan fróðleik um tæknisögu landbúnaðarins.  Fyrir skömmu sendi hann fróðleik um heybyssurnar, bæði í texta og myndum.

 

Meðal annars greindi Ólafur frá því hvernig bændur nyrðra húkkuðu saman bílvél og blásara - og þar mun Jón í Árteigi hafa verið höfuðsmiðurinn. Meðfylgjandi teikning Ólafs sýnir afar athyglisverða lausn:

 

Aflagður fólksbíll var notaður til þess að knýja blásararnn - tækin tvö tengd saman í eina einingu eins og myndin sýnir. Ólafur lýsir lausninni þannig:

 

...„Ja, boddíið var skorið af grindinni en framendinn skilinn eftir svo smíðaði Jón [í Árteigi] heybyssu aftan á grindina. Þessi Mercury-heybyssa var notuð um tíma [Mercury árgerð 1949]... ef að þurfti að færa [byssuna] þá var bara að færa drifskaftið á drifið og keyra [hana] þangað...

... Heybyssa með 90 til 100 hestafla Ford V8. Oftast voru sett undir þær hjól af gömlum hestasláttuivélum“...

 

Þetta dæmi er eitt af mörgum um íslenska aðlögun erlendrar tækni. Í sögulegu samhengi eru slík dæmi  býsna merkileg og full ástæða til þess að halda þeim til haga.

 

Lesendur eru hvattir til að senda línu, myndir eða annað um slík dæmi. Allur fróðleikur af því tagi verður þeginn með þökkum.