25. febrúar 2013

Samningur um bókasafn Árna G. Eylands

Á Eylands-þingi vorið 2010 tilkynntu Bændasamtök Íslands að Landbúnaðarsafni Íslands yrði falið að varðveita bókasafn Árna G. Eylands sem hann á sínum tíma gaf Búnaðarfélagi Íslands.

 

Um er að ræða bækur sem einkum varða tæknisögu íslensks landbúnaðar, í víðum skilningi, en á sviði ræktunar og tæknivæðingar landbúnaðarins var Árni frumkvöðull, svo sem áður hefur verið kynnt hér á síðunni.

 

 

 

Þann 25. febrúar sl. undirrituðu samning um varðveislu bókasafnsins þeir Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands og Bjarni Guðmundsson verkefnisstjóri Landbúnaðarsafnsins.

 

Markmið samningsins er að safnið verði "nýtt til rannsókna og sýningar á Landbúnaðarsafni Íslands" eins og segir í fyrstu grein hans.

 

Bóka- og ritakostur þessi kemur Landbúnaðarsafni mjög vel; myndar raunar kjarnann í heimildakosti safnsins. Safnið hefur verið frumskráð og verður því nú komið fyrir í verðandi skrifstofu Landbúnaðarsafns - á fjósloftinu gamla á Hvanneyri.

 

Meðfylgjandi mynd sýnir Harald og Bjarna staðfesta samninginn. Sem skrifborð var húdd Austin-dráttarvélarinnar frá 1920, næst fyrstu hjóladráttarvélarinnar sem til Íslands kom.

 

Það var einmitt hún sem Árni G. Eylands notaði við fyrstu tilraun til jarðvinnslu með hefðbundinni hjóladráttarvél hérlendis. Tilraunin var gerð á Korpúlfsstöðum fyrir réttum 90 árum, sjá bls. 25 í bókinni Alltaf er Farmall fremstur ...

 

Landbúnaðarsafn þakkar Bændasamtökum Íslands sýnda velvild með ráðstöfun þessar og metur hana mikils.