11. mars 2013

Steypu(steina)mót - Þekkir einhver þessi?

Steinsteypa er ekki gamalt fyrirbæri sé miðað við tímann frá því jörðin tók að kólna. Í byrjun síðustu aldar var steinsteypa flestum Íslendingum framandi.

 

Fyrir réttum hundrað árum var steinsteypugerð t.d. kynnt með fyrirlestri Jóns Þorlákssonar landsverkfræðings að mig minnir, á bændanámskeiði hér á Hvanneyri. Þótti þá til þess verðug nýlunda.

 

Meðal gripa sem varðveittust í Gömlu skemmunni á Hvanneyri fyrir tilstilli Guðmundar Jónssonar síðar skólastjóra og fleiri góðra manna, voru steypumót þau sem meðfylgjandi myndir eru af (myndirnar má stækka).

 

Sennilega eru þetta mótin sem Halldór skólastjóri Vilhjálmsson á Hvanneyri skrifaði svo um í skólaskýrslu sinni 1926-1928:

 

Skólinn hefir loks eignast ágætt steinsteypumót og er meiningin að piltar læri að steypa steina í því framvegis. Áhugasömu og iðjusömu nemendurnir, sem kunna að grípa hverja stund sem gefst, eru fljótir að steypa nokkra tugi steina, sem áður en varir eru orðnir hundruð - þúsundir. Nægilega mikið byggingarefni til þess að byggja heil hús á ódýrasta hátt, sem orðið getur. Enn vantar okkur góða tilsögn í húsagerð og þyrfti að senda færan mann út til þess að kynna sjer hana vel og rækilega.    (bls. 18).

 

Hér er þó einn galli á gjöf Njarðar. Við höfum ekki næga hugmynd um hvort hér er um sérsmíðuð mót að ræða, hvort þetta hafi verið staðal-verkfæri sem víðar þekktist .... Hefur einhver ykkar séð svona mót? það er vitað að steypusteinagerð var stunduð víðar á þessum fyrstu steinsteypuárum.  

 

Og svo hitt - hvernig gekk steypuverkið fyrir sig?

 

Sé einhver lesandi aflögufær um vitneskju væri afar gagnlegt að heyra í honum eða frá honum.

Þið hafið númerin!