13. mars 2013

Veglegur fundur í Vogalandi

Í gærkvöld efndi safnið og Fergusonfélagið til sagnakvölds í Vogalandi í Króksfjarðarnesi, svo sem áður hafði verið boðað hér á síðunni.

 

Ragnar Jónasson greindi frá Fergusonfélaginu og undirritaður sagði sögur undir yfirskriftinni "Frá Torfa í Ólafsdal til traktora nútímans".

 

Grundarbræður og Arnór Grímsson höfðu undirbúið fundinn með ágætum og voru móttökur þeirra höfðinglegar. (Naut heimsíðungur þess að vera ekið en aka ekki - rétt eins og þegar hann var síðast á (bænda)fundi í Vogalandi fyrir 40 árum).  

 

Hartnær sextíu mann sóttu fundinn.

 

Fundurinn varð hinn skemmtilegasti enda saman komnir Dalamenn, Austur-Barðstrendingar og Strandamenn, burtfluttir sem heimamenn.

 

Fergusonfélagið reiddi fram kaffi; bækur og bolir voru til sölu og félagaskrá Fergusonfélagsins lengdist. Skipst var á ýmsum fróðleik.

 

Líklega er ekkert hérað landsins jafn vel sett um fróðleik hvað snertir vélvæðingu landbúnaðar og Austur-Barð. þökk sé elju áðurnefndra þremenninga: Arnórs og  Guðmundar og Unnsteins, Grundarbræðra.

 

Frá þeim er einmitt myndin sem hér fylgir, en þeir bræður hafa frætt heimsíðung um merkilega og umfangsmikla heimasmíði verkfæra þar í sveitum. Fæ ég ekki betur séð en að héraðið hafi á landsvísu nokkar sérstöðu í þeim efnum.

 

Myndin er af heimagerðum heyblásara - heybyssu eins og heita mundi á NA-landi. Og af ýmsu fleiru er að taka: sláttutætara, steypuhrærivél ofl.  Gripurinn er í safni þeirra Grundarbræðra.

 

Gaman var að eiga svo góðan fund nærri slóðum frumkvöðulsins Torfa Bjarnasonar í Ólafsdal.