17. mars 2013

Málþing á Hvanneyri

 

Á fimmtudaginn kemur, 21. mars, verður haldið málþing á Hvanneyri. Þar verður fjallað um Gamla staðinn, sem þar er svo kallaður og þær merku byggingar sem hann mynda.

 

Dagskrána í einstökum atriðum má rekja eftir slóðinni http://www.lbhi.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=6711

 

Gamli staðurinn á Hvanneyri geymir kjarna Búnaðarskólans þar á árunum frá stofnun skólans, 1889, og allt til byrjunar þessarar aldar.

 

Gömlu skólahúsin á Hvanneyri mynda einstaka heild bygginga frá bernskuárum nútíma húsagerðarlistar hérlendis. Húsin eru verk, og meira að segja meðal fyrstu verka, fyrstu íslensku arkitektanna, þeirra Rögnvaldar Ólafssonar og Guðjóns Samúelssonar að ólgleymdum Einari Erlendssyni, er oft lendir í skugga hinna meistaranna tveggja.

 

Löngu er tekin ákvörðun um það að vernda útlit og næsta umhverfi húsanna á Gamla staðnum, svo einstök sem húsaheildin er í íslenskri byggingasögu.

 

Gamli staðurinn geymir líka stóran hluta íslenskrar búnaðarsögu. Í næsta nágrenni hans má sjá ræktunarminjar frá ýmsum tímum. Engjalöndin niður undan bænum, meðfram Hvítá eru sérstæðar náttúruminjar - nú hluti af verndarsvæði við innanverðan Borgarfjörð og ósa Hvítár.  

 

Þarna er því um að ræða gagnmerkt minjahverfi sem rækja þarf og rækta með verðugum hætti.

 

Landbúnaðarsafn Íslands stefnir í það að verða helsti kjarnaþáttur þessa minjahverfis.

 

Allir áhugasamir eru hvattir til þess að sækja málþingið - til þess að fræðast og til þess að taka þátt í umræðum um málefnið og framtíð þess. 

 

Ýtið hér á http://www.lbhi.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=6711 og fræðist frekar um dagskrá þingsins.