10. apríl 2013

Forn skurðgröfubæklingur úr Flóanum

Að þessu sinni ætla ég að segja þér frá dálitlum bæklingi sem ég rakst á í einstæðu skjalasafni Árna G. Eylands, sem varðveitt er í Héraðsskjalasafni Árnesinga á Selfossi. Sagan verður lítið nema formálinn en hann þeim mun rækilegri.

 

 

Fyrir margt löngu var ég, sem oftar,  á ferð með nemendum Búvísindadeildar á Hvanneyri um Suðurland. Komum við á Brúnastöðum, hjá Katli bónda Ágústssyni, hvar við þáðum staðgóðan morgunverð eftir að hafa litið í hús.

 

 

Gengur þá til stofu Ágúst bóndi Þorvaldsson, roskinn og virðulegur, og heilsar komumönnum. Eftir almennar fréttir bað ég hann segja nemendum söguna um Skeiðaáveituna (og Flóans). Ágúst tekur stöðu í dyrum milli stofanna, stingur höndum undir vestisboðungana og hefur frásögnina, sem hann var ekki að hafa yfir fyrsta sinni.

 

Ekki þarf ég að lýsa flutningi sögunnar - fremur áhrifunum hans. Einn af öðrum hættu nemendur mínir að eta morgunverðinn en hlustuðu af vaxandi andakt á sögu Ágústs.

 

Eftir á varð mér ljóst að þarna hafði nemendum verið fluttur einn besti fyrirlestur, sem ég hafði heyrt - bæði að efni og formi. Vissulega hefði verið gaman að eiga hann núna t.d. á "Jútúp" - en eiginlega finnst mér betra að eiga hann í minningunni.

 

Áveituframkvæmdirnar fyrir austan Fjall voru einstæðar. Um þær má svo sem lesa víða.

 

Annar sem vel þekkti þá sögu var Stefán bóndi í Túni Guðmundsson er kvaddi okkur fyrir nokkrum dögum kominn á tíunda áratuginn. Hann kunni líka vel að segja frá framkvæmdunum og áhrifum þeirra á búskap og mannlíf í Flóanum.

 

Bændahöfðingjanna tveggja, Ágústs og Stefáns, minnumst við með virðingu.

 

Kemur þá að bæklingnum.

 

Skurðgrafan er gróf aðalskurð Skeiðaáveitunnar kom árið 1919 (árið sem Stefán í Túni fæddist...). Hún var frá Bay City Dredge Works í Bandaríkjunum, fyrirtæki sem á þeim tíma var mikilvirkt á sviði grafvéla.

 

Bæklingurinn er líklega eitthvað yngri, að ætla má, þó ekki mörgum árum. Ég legg hluta hans hér með svo áhugamenn geti skoðað hann nánar og fræðst um gröfuna.  Þar er sagt frá tveimur gröfugerðum sem fyrirtækið Bay City Dredge Works falbauð.

 

Ýmsan fróðleik má finna á Netinu um málið undir samtengdum leitarorðunum "Bay City Dredge Works" ...

 

Hún var svo sem ekki lipur þessi grafa þeirra Skeiðamanna, stóð á brú yfir skurðinn og gróf á undan sér - sjá bókina Búvélar og ræktun, bls. 45-46. Afköst hennar miðað við handverkfærin voru þó gríðarleg...