22. apríl 2013

Að fara í geitarhús að leita ullar

Yfirskriftin er alþekkt orðatiltæki - orðtak - brúkað þegar einhvers er leitað á ólíklegum stað eða þá að leit er talin vonlaus (fyrirfram...)

 

 

Það á þó ekki við pistil dagsins. Hann snýst um vísa hluti á vísum stað hjá vísu fólki.

 

Landbúnaðarsafn vill með skrifum þessum vekja athygli á Geitfjársetrinu á Háafelli í Hvítársíðu,sjá www.geitur.is

 

Á Háafelli er unnið afskaplega merkilegt starf að varðveislu íslenska geitastofnsins og þeirrar menningar sem henni tengist. Geitin er hluti íslenskrar búmenningar og geitin á snaran þátt í íslenskri búnaðarsögu. Á Háafelli er sýnt hvaða erindi geitin á við samtíma okkar og framtíð.

 

Skoðið endilega heimasíðu Geitfjársetursins en af henni er eftirfarandi texta hnuplað:

 

 

Geitur hafa fylgt Íslendingum frá landnámi eins og sést á örnefnum víða um land. Um miðja 20. öld lá við að stofninn þurrkaðist út en síðan þá hefur verið reynt að viðhalda honum og er nú svo komið að íslenski geitastofninn telur 818 dýr (2011-2012) en telst enn í útrýmingarhættu.

 

Okkur er skylt að vernda þennan stofn. Ekki bara vegna þess að við erum skuldbundinn af alþjóðlegum samningum að vernda dýr í útrýmingarhættu heldur ætti okkur að vera það einnig ljúft að varðveita þennan hluta af okkar sögu og menningu. Að auki búa geitur yfir verðmætum afurðum sem hægt er að vinna svo sem mjólk, þel, kjöt og skinn.

 

Ábúendur á Háafelli í Hvítársíðu hafa ræktað geitur í meira en tvo áratugi og hýsa nú rúmlega fimmtung stofnsins. Hér má finna upplýsingar um ræktunina og þá þekkingu sem hjónin á Háafelli hafa viðað að sér um íslensku geitina og nýtingu afurða hennar.

 

Fyrir þá sem vilja taka þátt í því að viðhalda íslenska geitastofninum bendum við á að smella á aðgerðahnappana hér til vinstri.