12. maí 2013

Skóflusafnið í Osnabruck

Á föstudaginn var kom í safnið stúdentahópur frá landbúnaðardeild háskólans í Osnabruck í Þýskalandi ásamt kennurum. Áhugasamur hópur og hress.

 

Í safninu vöktu tveir hlutir sérstaka athygli eins kennarans; það voru ristuspaðinn annars vegar og pállinn hans Árna G. Eylands hins vegar.

 

Kennarinn heitir Klaus Mueller. Við samræður kom í ljós að hann hefur komið sér upp skóflusafni, Spatensammlung, á máli þarlendra.

 

Safnið hans Klausar er töluvert að vöxtum og spannar ýmis aldursskeið. Myndin að ofan sýnir eldfornan spaða eða skóflu, en myndin hér er af safnstjóranum Mueller þar sem hann styður sig við væna skóflu nútímalega.  

 

Nú er það svo að spaði/skófla er eitt af þeim fáu verkfærum sem fylgt hefur öllum bændum víða um lönd í aldanna rás svo ekki er undarlegt að til verði heilt safn um það.

 

Klaus heldur úti heimasíðu fyrir safnið sitt, sem ég hvet þig eindregið til þess að líta á: ... www.spatensammlung.com

 

Klás undraði notkun ristuspaðans við gerð þaklsléttna hérlendis; sú ræktunartækni er enda séríslensk, að því er virðist. Viðlíka spaða kvaðst Klaus þó hafa séð.

 

Hins vegar var pállinn honum gersamlega framandi - slíkt verkfæri hafði hann aldrei séð. Spurði Klaus mjög um brúikun hans og tók af honum margar myndir.

 

Svona er nú margt skrýtið og sérstætt í veröldinni - meira að segja hér á Íslandi.

 

.... en ástæðan fyrir hingaðkomu hópsins er sú að einn stúdentanna hafði dvalið hérlendis í þrjá mánuði á síðasta sumri sem ferðaþjónn í Hofsstaðaseli/Hofsstöðum í Skagafirði. Taldi hún hópinn á að fara í námsferð til Íslands. Hópurinn mun ferðast hringinn í kringum landið undir stjór íslensks fararstjóra.