16. maí 2013

Unimog kominn í dagvist í safninu

 Á dögunum sögðum við frá "jeppa-dráttarvélinni" UNIMOG, gagnmerku þýsku tæki sem létta skyldi bændum störfin upp úr miðri siðustu öld.

 

Í gær fórum við Jóhannes Ellertsson skreiðarferð suðrí Mosó og sóttum þangað forkunnarfallega uppgerðan UNIMOG, sem verður í dagvist í Landbúnaðarsafni uns annað verður ákveðið.

 

Eigandinn og uppgerandinn, Erlingur Ólafsson í Reykjadal, er svo vinsamlegur að lána safninu gripinn til sýningar. Gerður var sérstakur samningur við Erlend um lánið. 

 

Gripurinn er hin mesta safnprýði og bætir við fróðleik sem þar er að hafa. "Múkkanum"  mun fylgja þessi upplýsingatexti:

 

 

Um miðja síðustu öld voru, einkum í Evrópu, smíðuð tæki til bústarfa sem sameina skyldu kosti dráttarvéla og jeppa. Eitt þeirra var UNIMOG; nafnið var myndað úr orðunum "UNIversal-MOtor-Gerät" . („Múkkinn“ og „Mugginn“ voru meðal gælunafna sem tækið fékk hérlendis ...).

 

Hugmyndin að Unimog kom fram skömmu eftir seinna stríðið. Mercedes Benz smíðaði gripinn. Unimog var formlega kynntur Íslendingum á bílasýningu Ræsis hf í Reykjavík sumarið 1954.

 

Næstu tvö árin var tugur „Múkka“ fluttur inn, líklega flestir til búverka, því með þeim komu sláttuvélar, plógar og etv. fleiri verkfæri. Aflúttök eru að framan og aftan og undir kvið mátti koma fyrir sláttuvél, sem gekk út til vinstri.

 

Unimog mun hafa þótt stirður til búverka en þeim mun betri til aksturs í torfærum.

 

Deilur risu um það við álagningu opinberra gjalda hvort flokka ætti Unimog sem bifreið eða dráttarvél, einkum vegna þess hve hraðgengur „Múkkinn“ væri – hann náði amk. 40 km/klst.

 

Þessi Unimog er hér í dagvist; hann er eign Erlings Ólafssonar í Reykjadal, Mos., sem hefur gert hann upp. Gripurinn mun vera af árgerðinni 1951 (Model 2010). Í honum er 25 hestafla díselvél.

 

Mest allan starfsaldur sinn ól hann á Suðureyri við Súgandafjörð sem slökkvibifreið.

 

Gaman væri að heyra frá mönnum sem reynslu hafa af notkun UNIMOG til búverka eða hafa heyrt af honum sögfur