28. maí 2013

Klukkustýrð fjárútlát

Það er margt sem rekur á fjörur Landbúnaðarsafns, bæði hlutlægt og óhlutlægt. Hér segir af hinu síðara.

 

Heimildarmaður hafði samband, upphaflega vegna fyrirspurnar heimsíðungs um UNIMOG er birtist í síðasta Bændablaði. Fyrst sambandið var komið á tókum við að ræða um fleira.

 

Heimildarmnaðurinn hóf að segja sögur af manni nokkrum austfirskum er gat sér orð í heimasveit fyrir ýmsar uppfinningar. 

 

Segir nú af einni þeirra:

 

Beitarhús voru eigi allfjarri bæ uppfinningamannsins. Tók því nokkurn tíma að ganga þangað til þess að sinna fénu, m.a. hleypa því út á morgnana til beitar og viðrunar.

 

Brá hugvitsmaðurinn þá á það ráð að verða sér úti um klukku stóra. Síðan smíðaði hann ramböld og virki er tengdu saman hurðirnar fjórar sem á fjárhúsinu voru, og hreyfibúnað þeirra.  

 

Síðan stillti okkar maður klukkuna á æskilegan úthleypingartíma fjárins. Er að honum kom hleypti klukkan af stað gangverki dyraumbúnaðar fjárhússins. Hurðirnar fjórar lukust upp og út gengu ærnar til dagsverksins, að eta fylli sína og njóta hreina loftsins.

 

Uppfinningamanninum dugði þá að fara á húsin í dagslok, hýsa hjörð sína og stilla sigurverkið að nýju.

 

"Fansý" búnaður úr erlendum fjöldasmiðjum er ágætur, en í sögulegu tilliti eru hinar heimagerðu lausnir miklu merkilegri.

 

Urmull frásagna um þær  er til, sem og minjar. Þeim er gagnlegt að halda til haga.

 

Því til hvatningar er þessi saga sögð.

 

Landbúnaðarsafn Íslands þiggur fúslega fleiri. Síminn er 844 7740 og pósturinn bjarnig@lbhi.is